Kynntist jóga á leiðinni af jaðrinum
- Þór Jóhannesson lærði núvitund hjá SÁA. Í framhaldinu kynntist hann jógamunki sem kenndi honum jóga og hugleiðslu
Þór Jóhannesson var kominn á endastöð í lífinu árið 2014 eftir nokkurra ára neyslu áfengis og fíkniefna. Hann fór á námskeið í núvitund hjá Ásdísi Olsen í gegnum SÁÁ og í framhaldinu leiddi eitt af öðru og er jóga nú orðinn stór hluti af lífsstíl Þórs en hann kennir jóga hjá World Class í Reykjavík og í Kópavogi við miklar vinsældir. Hann býður líka upp á einkaþjálfun í jóga.
Þór ólst upp í Keflavík en flutti til Reykjavíkur í kringum tvítugsaldurinn. Hann lærði bókmenntafræði við Háskóla Íslands og tók virkan þátt í leiklistarlífinu í skólanum. Síðar lauk Þór námi í kennsluréttindum og starfaði meðal annars sem blaðamaður og grunnskólakennari. Hann segir alkóhólismann hafa byrjað að þróast á háskólaárunum. „Svo þegar hrunið kom var ég orðinn mjög reiður. Alkóhólisminn er þannig að ef maður hefur enga lausn á málunum verður maður að drekka. Alveg sama þó að maður viti að maður eigi ekki að gera það. Það er þessi algjöri skortur á getu til að velja og hafna. Sá hæfileiki bara fer en hann kemur aftur þegar maður nær tökum á andlegu hliðinni. Ef maður nær ekki tökum á henni verður maður alltaf í togstreitu og hún er ekki góð til lengdar,“ segir hann.
Þór kennir jóga í World Class í Reykjavík og í Kópavogi. Auk þess býður hann upp á einkaþjálfun í jóga. VF-mynd/dagnyhulda
Þór leitaði sér hjálpar við neyslunni árið 2014 og fór í meðferð. Í framhaldinu leitaði hann leiða til að koma ró á hugann. „Ég var svo heppinn að SÁÁ bauð vikulega upp á fría núvitund hjá Ásdísi Olsen og ég fann strax hvað hún gerði mér gott.“ Í framhaldi af núvitundariðkuninni röðuðust legokubbar lífs Þórs þannig upp að honum var boðið á hugleiðsluhelgi úti á landi. „Allt í einu var ég bara mættur á hugleiðsluhelgi. Þar kynntist ég manni sem kom mér í kynni við jógamunk sem tók mig í persónulega þjálfun og kenndi mér bæði hugleiðslu og jóga.“ Á þessum tíma var Þór að vinna sig upp eftir neysluna en árin á undan hafði hann ekki haft getu til að vinna. „Það má segja að ég hafi sveiflast úr einu kerfi í annað og var kominn inn í bótapakka.“ Þór hafði ekki efni á að fara í jógatíma og stundaði því jóga á sundlaugarbakkanum í Vesturbæjarlauginni. Síðar sótti hann tíma í hot jóga hjá Brynju Bjarnadóttur, úr Reykjanesbæ, í World Class. „Hún var uppáhalds kennarinn minn og fyrirmynd á þann hátt að hún er ekki föst við ákveðna stíla. Þannig reyni ég líka að kenna.“
Ætlaði aldrei að kenna jóga
Hjá Ananda Marga hreyfingunni í Danmörku lærði Þór til jógakennara en ætlaði sér þó aldrei að kenna jóga, heldur fór hann í námið til að öðlast betri skilning á „asanas“ eða jógastöðunum. Síðar fór hann í framhaldsnám til Indlands. „Áður en ég vissi af var ég byrjaður að leysa af í World Class. Ég var mjög heppinn að Hafdís Jónsdóttir, eigandi World Class, hafi hleypt mér inn um þessa hurð,“ segir Þór sem í dag er jógakennari í fullu starfi. Tíma Þórs sækir fjölbreyttur hópur fólks á öllum aldri og þarf að panta tíma til tryggja sér pláss, jafnvel á sunnudagsmorgnum. Þór býður líka upp á einkaþjálfun í jóga þar sem hann veitir fólki persónulegan stuðning við sína jógaiðkun. Þór segir fólk koma í einkaþjálfun í jóga á ýmsum forsendum. Sumt fólk til að læra grunnstöðurnar, annað til að ná tökum á erfiðum jógastöðum eða til að ná öðrum persónulegum markmiðum í jóga sem ekki er hægt að kenna í fjölmennum jógatíma.
Jóga er meira en að standa á höndum
Jóga, núvitund og hugleiðsla njóta sífellt meiri vinsælda hér á landi. Þór bendir á að það sem við á Vesturlöndum köllum jóga sé þó svolítið frábrugðið jóga á Indlandi, þar sem meiri áhersla sé á andlegu hliðina. „Jóga er ekki bara hreyfing, heldur ákveðinn lífsstíll sem fólk tileinkar sér. Maður iðkar ekki endilega jóga, heldur lifir jóga. Það er frábært að hafa jóga bara sem hreyfingu, enda liðkar fólk sig, styrkir sig, nær betri tökum á einbeitingu og hvílir betur í sjálfu sér.“ Sjálfur stundar Þór hugleiðslu daglega þó að hann kenni hana ekki. Hann segir hugleiðslu í raun hluta af jógaiðkuninni enda snúist jóga um svo miklu meira en að geta staðið á haus. Núvitundin sé fyrsta skrefið í átt að hugleiðslu. „Núvitundin hjálpaði mér í byrjun að komast inn í þetta jógíska hugleiðslukerfi. Mér fannst mjög erfitt að setjast niður og þegja því hugurinn var alltaf á fullu. Nú er það þannig að ef ég iðka ekki mína hugleiðslu þá verð ég bara ruglaður.“
Þór fór í jógakennaranám til að ná betri tökum á jóga en ætlaði sér ekki að fara að kenna. Hann byrjaði svo að leysa af í World Class og er nú jógakennari í fullu starfi.