Kynfræðslu ábótavant í skólum landsins
Segir Sigga Dögg kynfræðingur
Kynfræðingurinn Sigga Dögg hefur vakið nokkra athygli fyrir umfjöllun sína um kynlíf og kynfræðslu. Sigga Dögg er uppalin í Keflavík en hún lauk BA-prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands og meistaranámi í kynfræði í Ástralíu. Undanfarið hefur Sigga Dögg farið víða og m.a. haldið fyrirlestra í grunn- og framhaldsskólum landsins þar sem kynlíf hefur verið aðal umræðuefnið. Víkurfréttir hittu Siggu fyrir í Njarðvíkurskóla á dögunum þar sem hún fékk til sín nemendur á unglingastigi og foreldra þeirra í kynfræðslu.
„Þau er ótrúlega flott og dugleg að spyrja og taka yfirleitt virkan þátt. Mér finnst oft talað um unglinga eins og þau séu sóðaleg, skrítin og afbrigðileg,“ segir Sigga Dögg en hún er því ekki sammála. Krakkarnir nú til dags eru að spyrja nákvæmlega þess sama og Sigga og hennar jafnaldrar veltu fyrir sér þegar þau voru að stíga sín fyrstu skref í kynlífinu. Það finnst henni stinga í stúf þar sem fræðslan ætti að vera aðgengilegri nú til dags, sérstaklega hvað varðar allar upplýsingarnar sem nálgast má á netinu. Sigga Dögg telur kynfræðslu vera ábótavant í skólum á Íslandi. „Af því að þetta er vandmeðfarið efni þá hefur þetta setið á hakanum,“ segir kynfræðingurinn.
Eftir að Sigga Dögg hefur rætt við unglingana yfir daginn þá er haldinn sameiginlegur fyrirlestur á kvöldin með foreldrunum. Með því að hafa foreldrana með í jöfnunni segir Sigga Dögg að hún sé að reyna að brjóta ísinn varðandi feimnismál sem oft sé erfitt að ræða. Foreldrarnir hafa tekið þessu vel og eru Siggu þakklátir fyrir að koma umræðunni af stað.
Unglingarnir hafa ýmsar áhyggjur og spyrja mikið varðandi hin ýmsu vandamál. Hvernig þau eiga að bera sig að og um hvort hitt eða þetta sé eðlilegt. Eins eru þau forvitin varðandi getnaðarvarnir og þunganir. „Mér þykir þau vera ótrúlega einlæg og mér þykir vænt um það.“
Stundum kemur það fyrir að unglingarnir slái hana út af laginu. Þá sérstaklega þegar vanþekking þeirra og reynsluleysi kemur fram í dagsljósið. „Kynlíf er mikið hitamál sem þarf að tala um. Ég tel líka að börnin vanti fróðleikinn og ég vona að þetta haldi áfram að þróast í rétta átt. Ég held að umræðan verði að vera háværari í samfélaginu okkar, sérstaklega í ljósi alls sem hefur verið að koma upp á yfirborðið undanfarið.“
(Í innslagi VF um Siggu Dögg í sjónvarpsþættinum Suðurnesjamagasín var ranglega sagt að Sigga Dögg sé menntaður sálfræðingur. Hið rétta er að hún hefur lokið BA-prófi í sálfræði.)