Kvöldstund fyrir skólaforelda í Fjölskyldusetrinu
Kristín Lilliendahl með erindi um foreldrahlutverkið.
Kristín Lilliendahl uppeldisfræðingur og fjölskylduráðgjafi flytur erindi sitt: Að fóta sig í foreldrahlutverkinu, í Fjölskyldusetrinu að Skólavegi 1, n.k. miðvikudaginn 25. mars. Kristín ætlar að deila með foreldrum nokkrum hugleiðingum um það ábyrgðarfulla hlutverk að ala upp börnin okkar í nýjum samfélagslegum veruleika hraða, tækni og samskipta sem okkur foreldrum er misjafnlega aðgengileg.
Hún ræðir um þá samkeppni sem foreldrar upplifa gjarnan um athygli barna þeirra og það viðnám sem þarf að veita þegar á reynir. Einnig fjallar Kristín um jákvæð og neikvæð áhrif aukinnar fjarveru foreldra og þau margvíslegu viðfangsefni sem börn glíma við á eigin spýtur í dagsins önn, ekki síst í samskiptum við jafnaldra. Að lokum verða hugleiðingar um hvernig foreldrar geta á einfaldan hátt dregið úr ýmsum utanaðkomandi áhrifum og styrkt sitt eigið hlutverk og áhrif í samskiptum við börn sín.
FFGÍR og Fjölskyldusetrið bjóða alla skólaforeldra velkomna á meðan húsrúm leyfir. Kaffi verður á könnunni og léttar veitingar. Erindið verður í klukkutíma, frá kl. 20:00 til 21:00.