Kvöddu eiturlyfin
Eiturlyfjaógnin er eitt stærsta vandamál sem sækir að íslensku þjóðfélagið þar sem framboð og neysla hverskyns fíkniefna hefur sjaldan eða aldrei verið meiri. Suðurnes eru engin undantekning á þeirri reglu, nema síður sé.
Davíð Þór Arnarsson er 25 ára og Jón Grétar Erlingsson er 23ja ára. Þeir eru ungir menn sem eiga þó að baki meiri erfiðleika, vonbrigði og niðurbrot en flestir sem eru tvöfalt eldri, eftir að hafa um árabil verið háðir fíkniefnum. Áhrifin sem neysla þeirra hafði á þá og fjölskyldur þeirra er þó ekkert einsdæmi, því alltof margir hafa komið sér og sínum í aðstæður sem enginn ætti að láta bjóða sér.
Þeir hafa nú verið á beinu brautinni síðustu sjö mánuði og eru farnir að vinna að forvarnarmálum. Þeir féllust á að deila sögu sinni með lesendum Víkurfrétta til að vekja athygli á mikilvægi forvarna og í von um að það yrði til að ungt fólk hugsi sig tvisvar um áður en það tekur fyrsta sopann, reykinn, eða pilluna.
Upphafið
„Ég ólst upp lengst af í Reykjavík,“ sagði Davíð. „Ég fór að detta í það þegar ég var 12 ára en ég var ekki hrifinn af brennivíni og fór að reykja hass þegar ég var 12-13 og datt inn í þennan pakka. Ég hafið verið lagður í einelti í skóla og fann mér einhvernveginn betri félaga í þessu.“
Neyslumynstur Davíðs Þórs breyttist fljótt frá því að reykja um helgar og um 13 til 14 ára var hann farinn að neyta hass á hverjum degi. „Og ef maður var ekki að reykja, var maður að reyna að útvega sér efni allan daginn.“
Jón Grétar byrjaði að drekka á svipuðum aldri, um 12 eða 13 ára og var farinn reykja hass 14 ára. Sú staðreynd að þeir séu svo ungir þegar þeir eru komnir í neyslu veltir upp þeirri spurningu hvort það sé virkilega svona auðvelt að nálgast efnin. „Ef maður ætlar að redda sér efnum gerir maður það og ef þú ert yfirhöfuð kominn í þennan félagsskap, þá er þetta ekkert mál,“ segja þeir félagar.
„Fyrsta skiptið sem ég fer í meðferð er ég 16 ára gamall, en þá var það bara til að friða foreldrana,“ segir Davíð. „Uppúr því fer ég hins vegar í mjög harða neyslu þar sem ég fór að sprauta mig með morfínefnum, en hætti því eftir um tvö til þrjú ár, þegar ég var um 19 ára, og fór að nota eingöngu hass og kókaín.“
Davíð segist hafa farið út í sprautunotkun eftir vistina á Vogi þar sem hann kynntist eldri strákum. „Á þessum aldri lítur maður líka á það þannig að þeim mun ruglaði sem þú ert, þeim mun flottari ertu.“
Neysla Jóns Grétars vatt líka fljótt upp á sig án þess þó að hann færi út í sprautuneyslu. 16 ára gamall var hann farinn að neyta harðra efna eins og amfetamín og E-pillur. „Ég var líka farinn að selja mikið um leið og ég var kominn í þessa neyslu og hafði því alltaf aðgang að miklu efni. Það varð ef til vill til þess að ég fór aldrei út í að sprauta mig, en mér hefur annars alltaf verið illa við sprautur.“
Afneitun
Eins og fyrr sagði hætti Davíð Þór að sprauta sig um 19 ára aldurinn og flytur þá til Reykjanesbæjar. „Ég hafði verið mikið í afbrotum, m.a. innbrotum á þessum tíma, en flestir mínir vinir voru komnir inn á Litla Hraun eða komnir þaðan út með stærri plön í þessum bransa, þannig að ég ákvað að koma mér út úr þessum félagsskap og reyna að búa mér til líf. Því náði ég þannig séð. Hélt vinnu, átti heimili, konu, bíl, en var samt að selja og svoleiðis.“
„Á þessum tíma reyktum við samt stuð á hverjum degi,“ bætir Jón Grétar við. „En við töldum okkur trú um að þannig væri maður góður og næstum edrú!“
En hvar snertu þeir botninn á neysluferli sínum? Jón Grétar segist oft hafa farið niður á botn á ferli sínum. „Ég fór niður á botninn þegar ég var 16 ára þegar ég var lagður inn á geðdeild. Ég var 17 eða 18 ára þegar fjölskyldan henti mér út og ég var orðinn stórskuldugur, en ég var kominn alveg niður nú á endanum. Þá gekk ég hreinlega á dópi, var orðinn geðveikur með ofsóknarbrjálæði og þorði ekki heim til mín. Maður fer á botninn, en þegar staðan lagast gleymir maður því slæma.“
„Maður telur sér trú um að hlutirnir verði öðruvísi,“ bætir Davíð við.
Fjölskyldan
Það er algengt viðkvæði að þegar fíkill er í neyslu, er það ekki bara hann sem er veikur, heldur allir sem umgangast hann. Lygar, þjófnaður, svik, ofbeldi og áhyggjur er á meðal þess sem aðstandendur þurfa að upplifa með fíkil inni í sínu lífi. Löngum hefur þessi hlið málsins orðið útundan í umræðunni, en í dag geta foreldrar fengið ráðgjöf um það hvernig á að snúa sér í þessum málum, til hagsbóta fyrir sig og veika aðilann.
„Þau lenda verr í því en við ef eitthvað er,“ segir Jón Grétar. „Við förum út og þau sitja heima með áhyggjur og gráta sig í svefn, en við bara dópuðum okkur niður og gleymdum öllu. Ég var á endanum farinn að svíkja vini mína og stinga þá í bakið, sem var eitthvað sem ég hélt að ég myndi aldrei gera.“
Davíð segist hafa snemma verið farinn að hverfa að heiman langtímum saman, en hann hafi jafnan verið velkominn aftur heim þar sem hann fékk að borða, sofa og þess háttar. „Mamma var að vísu mjög fljótt farin að leita sér ráðgjafar í þessu máli og lærði því fljótt inn á sjúkdóminn, eins líka að höndla sín mál sem aðstandandi. Það hjálpaði henni mikið og þess vegna hvet ég alla til að kynna sér þessi mál.“
Mikil hassneysla
Fíknefnamarkaðurinn á Suðurnesjum hefur verið að stækka undanfarin ár þar sem hefur einnig orðið eðlisbreyting á „skemmtana“-venjum að sögn Davíðs. „Þegar ég byrjaði að koma hingað suður eftir, 16 eða 17 ára snerist djammið aðallega um að detta í það og fara niður í bæ að slást.“
Jón Grétar tekur í sama streng og rifjar upp þegar hann var að taka sín fyrstu spor í neyslunni. „Þá var ég sá eini á mínum aldri sem var byrjaður í þessu og þurfti að fara mjög leynt með þetta. Þetta var lokaður hópur, en hefur stækkað hratt undanfarin ár.“
Þeir segja neyslu verða orðna sjálfsagðari og geta sér þess til að neyslan á hassi í Reykjanesbæ sé um eða yfir kíló á mánuði. Auk þess er amfetamín mikið notað í tengslum við næturlífið, en afar lítið er um sprautunotkun enn sem komið er.
Upprisan
Þeir félagar hafa nú snúið blaðinu við eftir að hafa verið inn og út af meðferðarheimilum í mörg ár og segjast nú vera komnir á réttu brautina. „Við erum að taka öðruvísi á þessu“, segir Jón Grétar. „Við stundum fundi og höfum líka báðir tekið trú og stundum samkomur. Það er stór hópur af okkar vinum sem hafa breytt lífi sínu með því að hleypa trúnni inn í lífið. Ég hef allavegana ekki átt betri sjö mánuði. Maður er farinn að brosa á hverjum degi og elska lífið.
Við vorum kannski tilbúnir til að gefa öllu séns þegar við fórum í þessa kristilegu meðferð. Það var líka eftir að ég fór að hafa trú á 12 spora kerfinu og fór að vinna heiðarlega að þeim sem hlutirnir fóru að ganga og trúin hjálpar okkur mikið í þessu.“
Annað sem hefur gefið þeim aukinn kraft er starf þeirra í forvarnarstarfi. Þeir hafa m.a. komið fram á vegum forvarnarverkefnisins Lundar og segja það hafa gefið sér mikið. Jón Grétar hélt sinn fyrsta fyrirlestur ekki alls fyrir löngu þegar hann talaði fyrir fullum sal af fólki í Sandgerði. „Sá fundur hlóð mig alveg upp í topp. Þegar maður er að tala fyrir framan hóp getur maður getur ekki sett upp grímuna sem maður hafði heldur kem ég fram eins og ég er. Strákur sem hefur gengið í gegnum ýmislegt. Annars finnst mér að maður verði að gefa af sér og hjálpa öðrum“.
Davíð tekur í sama streng. „Við verðum að gefa til baka það sem aðrir gefa okkur. Ég er loksins tilbúinn til að lifa lífinu, vera góður sonur foreldra minna og vinur vina minna og vera til staðar og fer sáttur að sofa á kvöldin.“
Þeir hvetja neytendur sem og aðstandendur til að kynna sér meðferðarúrræði sem bjóðast m.a. hjá Lundi, en þar er hægt að panta tíma hjá ráðgjafa frá SÁÁ. Tekið er á móti pöntunum á skrifstofu Reykjanesbæjar í síma 421 6700.
Þá er rétt að geta þess að Erlingur Jónsson, forsvarsmaður Lundar, stendur fyrir forvarnarfundum þar sem Jón Grétar, Davíð Þór og fleiri koma fram og segja sögu sína. Fundirnir hafa verið vel sóttir, en þeir sem hafa áhuga á að fá slíka kynningu geta haft samband í netfangið [email protected].
Texti og mynd/Þorgils Jónsson