Kvikmyndagerðarmenn Humarsúpu heiðraðir í Grindavík
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og krónprinsinn af Noregi, Hákon Magnús, á Bryggjunni á sama tíma.
Grindavíkurbær bauð til samkomu á veitingastaðnum Bryggjunni í tilefni þess að kvikmyndagerðarmennirnir Rafael Molés og Pepe Andreu, sem gerðu heimildarmyndina Humarsúpa, voru staddir hér á Íslandi. Með þeim var íslenski kvikmyndagerðamaðurinn Ólafur Rögnvaldsson en hann tók einnig þátt í gerð myndarinnar. Ásrún Kristinsdóttir, forseti bæjarstjórnar, hélt tölu og færði félögunum sitthvort málverkið eftir grindvíska listamanninn Pálmar Guðmundsson en hann málar mikið eftir ljósmyndum og voru myndirnar af Bryggjunni, í björtu og rökkri.
Það var skemmtileg tilviljun að forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, var staddur á Bryggjunni á sama tíma að borða hádegismat með krónprinsinum af Noregi, Hákoni Magnúsi, en hann var viðstaddur Arctic Circle ráðstefnuna. Guðni sótti Hákon þennan morgun, fór með hann til Grindavíkur þar sem þeir borðuðu á Bryggjunni og gengu svo um gosstöðvarnar.
En aftur að spænsku kvikmyndagerðarmönnunum. Umrædd mynd, Humarsúpa, var sýnd á RÚV síðasta vor en myndin hefur verið sýnd í 80 borgum á Spáni og ótal kvikmyndahátíðum um allan heim. Kvikmyndin vann til verðlauna, vann m.a. gullverðlaunin á kvikmyndahátíðinni í Sikiley.
Verið að sýna ferðamönnum sparihliðina
En hver er forsagan og af hverju Bryggjan? Pepe Andreu var á ferðalagi um Ísland fyrir nokkrum árum með fjölskyldu sinni. Þau gistu í Reykjavík og keyrðu þaðan í allar áttir. Þau fóru í Bláa lónið, þar var margt fólk og erfitt að komast að, náttúran var stórkostleg. Frábær ferðamannastaður. Samt var eins og þetta væri ekki alveg ekta fyrir íslenska þjóð. Það var nýtt hótel á staðnum, Retreat hótelið, og gestunum var sagt hvað nóttin kostaði. „Var Ísland svona ríkt land?,“ hugsuðu ferðalangarnir með sér. Það búa bara þrjú hundruð og eitthvað þúsund einstaklingar á Íslandi. Þegar glöggir listamenn koma á svona stað fá þeir á tilfinninguna að það sé verið að sýna gestum sparihliðina, sem er ósköp eðlilegt.
Grindavík er þekkt fyrir að vera samsett úr hverfum; Staðarhverfi, Járngerðarstaðarhverfi og Þórkötlustaðahverfi. Hér áður fyrr var Krísuvíkurhverfið líka í Grindavík. Á síðustu áratugum hefur nýtt hverfi litið dagsins ljós, sem við getum kallað „Bláalónshverfið“ sem í vaxandi mæli er farið að skila drjúgum skerfi í bæjarframleiðslu Grindavíkur.
Í rannsóknarleiðangur á Bryggjuna
Listamaðurinn frá Valencia var mjög hrifinn svo ekki sé meira sagt. Hann var strax farinn að vinna í fríinu sínu og fjölskyldunnar. Hann fór í rannsóknarleiðangur til Grindavíkur strax næsta dag og kom á Bryggjuna snemma morguns. Kaffihúsið opnaði klukkan sjö og Spánverjinn stóð við hurðina þegar húsið opnaði og bauð góðan dag. Veitingamaðurinn, Aðalgeir Jóhannsson, var hnellinn og viðræðugóður. Skömmu síðar mættu nokkrir fararstjórar á litlum rútum með fólk af flugvellinum sem var nýlent. Þetta voru farþegar sem höfðu eytt nóttinni í að fljúga frá Ameríku og hlökkuðu mikið til að heimsækja þetta skrítna land. Þeir sem tóku á móti flugfarþegunum vissu að Bryggjan vaknaði snemma, kannski fyrr en aðrir veitingastaðir. Vertinn var útlærður netagerðarmaður með áratuga reynslu. Hann sagði fólkinu sögur úr sjávarplássinu og tók fyrir það langsplæs á gömlum hanafæti og snjallsímarnir tóku hreyfimyndir til að senda vinum sínum í Ameríku til að sanna fyrir þeim að hér væru ekki bara eskimóar eins og margir héldu. Skömmu síðar mættu fastagestirnir og fengu sín sæti og kaffi. Þetta eru miklir sérfræðingar í þjóðmálum og víluðu ekki fyrir sér að fara í flóknustu mál heimsfréttana. Stundum var þeim heitt í hamsi en allt var leyst á skömmum tíma.
Rifu sig úr fötunum og stukku í höfnina
Klukkan tíu hófst fundur samkvæmt dagskrá. Þessir fundir gengu undir nafninu „Milliliðalaust á Bryggjunni“. Frummælandi að þessu sinni var Oddný Harðardóttir, formaður fjárlaganefndar þess tíma. Húsið var troðfullt og fundarstjórinn vitnaði í setningu frá Einari Ben: „Þú fólk með eymd í arf, þyrst og svangt við gnóttir stórra linda. Reistu í verki viljans merki, vilji er allt sem þarf.“
Klukkan fjögur átti að hefjast bein útsending frá EM í Frakklandi. Leikurinn var á milli Íslands og Englands. Það var stórstreymt og gott veður. Undir þessum kringumstæðum er alltaf háflóð í Grindavík á milli klukkan sex og sjö síðdegis. Það var gríðarleg stemmning og Spánverjinn naut sín vel, hann varð vitni að leik og stemmningu sem hann mun aldrei gleyma en öll munum við hvernig þessi frægi leikur þróaðist. Spánverjinn er ýmsu vanur þar sem hann er kunnugur spænska boltanum en honum var öllum lokið þegar þeir sem voru vitni að þessum stórtíðindum á Bryggjunni, rifu sig úr fötunum, hlupu yfir kæjann og stungu sér í höfnina. Hann reif upp símann sinn og tók óborganlegar myndir. Hann sagðist vera búinn að finna stað, Grindavík, sem hefur bæði Bláa lónið og Bryggjuna innan sinna bæjarmarka. Hér gerum við kvikmynd í hvelli, þar sem þjóðarsálin er fölskvalaus.