Mannlíf

Kvennakór frá Norður-Ameríku í Reykjanesbæ
Föstudagur 22. júní 2018 kl. 06:00

Kvennakór frá Norður-Ameríku í Reykjanesbæ

-heldur vinnusmiðju og tónleika í Bíósal Duus Safnahúsa.

Kvennakórinn SPIRITSONG heldur vinnusmiðju og tónleika í Bíósal Duus Safnahúsa miðvikudaginn 27. júní í samstarfi við Kvennakór Suðurnesja. SPIRITSONG er skipaður konum frá Kanada og Bandaríkjunum og er tilgangur kórsins að efla frið, tengsl og samstöðu um allan heim sem og á heimaslóðum.

Kórinn var stofnaður árið 2001 og hefur sungið í Kína, Tansaníu, Kosta Ríka, Grikklandi og Írlandi auk Kanada og Bandaríkjanna. Nú er förinni heitið til Íslands en kórinn mun ferðast um landið í lok júní og byrjun júlí og halda tónleika og vinnusmiðjur í Reykjanesbæ, á Sauðárkróki og Húsavík auk þess að koma fram á þjóðlagahátíð á Siglufirði.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Yfirskrift tónleikaferðarinnar til Íslands er „Frá þjóð til þjóðar“. Tónlistin sem kórinn flytur endurspeglar hinar fjölbreyttu rætur Norður-Amerískrar þjóðlagatónlistar en túlkar um leið þrá mannanna eftir friði, frelsi, virðingu og tengslum. Flutningur SPIRITSONG er svokallaður „choral theater“ þar sem tónlistin er túlkuð þannig að boðskapur tónlistarinnar skili sér sem og tónlistin sjálf. Lögin renna saman í eina heild og mynda einstaka kóraupplifun.

Með vinnusmiðjunum sem verða haldnar á Íslandi er ætlunin að mynda tengsl við konur á Íslandi og syngja með þeim. Kórkonur vonast til að læra eitt eða tvö einföld íslensk lög og jafnframt munu þær kenna þátttakendum nokkur auðlærð lög úr tónleikadagskrá kórsins sem munu síðan verða flutt á tónleikunum síðar um kvöldið. Félagar úr Kvennakór Suðurnesja, Kvennakór Hafnarfjarðar og Kvennakór Garðabæjar taka þátt í vinnusmiðjunni í Reykjanesbæ en aðrar söngkonur eru velkomnar. Hægt er að skrá sig með því að senda tölvupóst á  [email protected]. Skráningu lýkur mánudaginn 25. júní.

Eins og áður sagði verður vinnusmiðja og tónleikar í Bíósal Duus Safnahúsa miðvikudaginn 27. júní. Vinnusmiðjan verður frá kl. 17:00 til 19:30 og tónleikarnir hefjast kl. 20:30. Miðaverð á tónleikana er 1.000 kr. og verður miðasala við innganginn.