Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Kvenfélögin dugleg að styrkja nærsamfélögin
T.v. Ágústa Magnúsdóttir, formaður KSGK og t.h. Sólveig Ólafsdóttir, formaður Kvenfélags Grindavíkur með heiðursfélagana á milli sín, þær Ásu Atladóttur og Sigríði Finnbjörnsdóttur.
Laugardagur 18. maí 2019 kl. 08:00

Kvenfélögin dugleg að styrkja nærsamfélögin

Nýverið var stór dagur hjá kvenfélagskonum í Grindavík. Tilefnið var að Kvenfélag Grindavíkur var gestgjafi nítugasta aðalfundar Kvenfélagasambands Gullbringu- og Kjósarsýslu (KSGK) og 90 ára afmælis sambandsins en hvort tveggja var haldið í Gjánni, Grindavík. 

90 ára afmæli
Það er afar blómlegt félagsstarf innan kvenfélaga á landsvísu. Aðildarfélögin innan KSGK eru tíu, Kvenfélag Grindavíkur, Kvenfélag Keflavíkur, Kvenfélagið Fjóla í Vogum, Kvenfélagið Gefn í Garði, Kvenfélagið Hvöt í Sandgerði, Kvenfélag Garðabæjar, Kvenfélag Álftaness, Kvenfélag Mosfellsbæjar, Kvenfélag Kjósarhrepps og Kvenfélagið Seltjörn, Seltjarnarnesi. Félögin skiptast á að halda aðalfundinn. Alls eru 616 konur í félögunum tíu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Mikið líf og fjör hjá kvenfélögum
Sólveig Ólafsdóttir, formaður Kvenfélags Grindavíkur og Ágústa Magnúsdóttir, formaður KSGK sögðu frá starfi félagskvenna.


Kvenfélagskonurnar í Keflavík skemmtu með rappsöng.

„Margir viðburðir voru á liðnu ári hjá kvenfélögunum, svo sem kaffisala, basar, bingó, jólasala, fjáröflunarkvöld, þorrablót og að efna til skemmtanna í bæjarfélögunum, svo fátt eitt sé nefnt. Félögin heimsækja hvort annað, skiptast á að skipuleggja sameiginlega vorgöngu á sínu svæði á hverju ári, konur kynnast og sumar verða kærar vinkonur. Kvenfélögin eru mjög dugleg að styrkja nærsamfélögin. Má nefna að á síðasta ári veittu félögin samanlagt styrki til ýmissa verkefna, alls 7,5 milljónir. Í tilefni 90 ára afmælis KSGK samþykktu Kvenfélögin að styrkja „Sumarbúðir fatlaðra barna í Reykjadal“ að fjárhæð kr. 900 fyrir hverja félagskonu  og verður andvirði söfnunarinnar notað til kaupa á tækjum í samráði við forstöðumann,“ segir Sólveig. 

„Tvær góðar kvenfélagskonur, þær Ása Atladóttir og Sigríður Finnbjörnsdóttir voru sæmdar nafnbótinni „Heiðursfélagi Kvenfélagasambands Gullbringu- og Kjósarsýslu.“ Báðar höfðu þær gegnt formannsstöðu og öðrum trúnaðarstörfum í KSGK og Kvenfélagasambandi Íslands en KSGK er stofnaðili að KÍ,“ segir Ágústa.

Að aðalfundi loknum bauð Kvenfélag Grindavíkur til móttöku og dýrindis  veitinga. Boðið var upp á söngatriði, þar sem Arney Ingibjörg Sigurbjörnsdóttir söng stórkostlega. Bæjarstjórahjónin Fannar Jónasson og Hrafnhildur Kristjánsdóttir mættu til að samfagna og fræddi bæjarstjóri konurnar um bæinn Grindavík. Að lokum var honum þakkað innilega og formaður Kvenfélagsins, Sólveig Ólafsdóttir, færði þeim hjónum gjafir, m.a. buff sem merkt er félaginu og benti hún bæjarstjóra á að næst þegar hún sæi hann á göngu þá ætti hann að vera með buffið á höfðinu.