Kvenfélagskonur hópuðust í byggingar­vinnu og unnu eins og víkingar

Afmælissýning Tjarnarsels var opnuð í Átthagastofu Bókasafns Reykjanesbæjar undir lok síðasta árs en hún var sett upp í tilefni 50 ára afmælis elsta leikskóla bæjarins. Saga Tjarnarsels og leikskóla á Íslandi er sett fram á skemmtilegan hátt og upprunalegir munir eru til sýnis. Sýningin er gagnvirk sem þýðir að börnum er frjálst að leika sér með efniviðinn.
 
Verkefnið er samstarfsverkefni Tjarnarsels og Bókasafns Reykjanesbæjar og var hugmyndin upphaflega komin frá Ingu Maríu Ingvarsdóttur verkefnastjóra hjá Tjarnarseli og fyrrum leikskólastjóra. Á 20 ára leikskólastjóraferli fannst henni alltaf mikilvægt að varðveita leikföng, húsgögn og aðra muni sem leikskólinn var hættur að nota og hýsir Byggðasafn Reykjanesbæjar þá alla í dag.

 

Kvenfélagskonur byggðu Tjarnarlund sjálfar í sjálfboðavinnu

 
Fyrirrennari Tjarnarsels er dagheimilið Tjarnarlundur en það var sett á fót af kvenfélagskonum í Keflavík árið 1954. Á fyrstu árum kvenfélagsins fóru konur að tala um þörfina á því að það vantaði stað fyrir börn þar sem þau gætu átt athvarf, óhult frá hættum umferðarinnar á götum bæjarins. Eftir síðari heimsstyrjöld fóru konur í stórum mæli út á vinnumarkaðinn, oftast í tímabundin störf eða hlutastörf í fiskvinnslu. Kvenfélagskonur ákváðu því að koma á fót barnheimili og var það allt gert í sjálfboðaliðavinnu. Þær byggðu húsið að mestu leyti sjálfar, með góðri hjálp ýmissa aðila sem hjálpuðu til við bygginguna eða útveguðu efni.
 
Vegna þess að þetta var bæði dagheimili og félagsheimili sóttu konurnar um styrk til ríkisins úr félagsheimilasjóði. Með þeim styrk var húsinu komið upp án þess að taka lán. Einnig styrktu bæjarbúar byggingu hússins og Kvenfélagskonur unnu alla vinnuna í sjálfboðavinnu.
 
Kvenfélagið gefur bænum Tjarnarlund og var fyrsti opinberi leikskóli bæjarins opnaður 1967
Tjarnarlundur var rekinn af Kvenfélaginu á sumrin þangað til farið var að sjá fram á að reka þyrfti dagheimili allt árið. Kvenfélagið gaf bænum lóðina fyrir nýtt dagheimili sem var byggt við hliðina á Tjarnarlundi og mynduðu húsin tvö leikskólann Tjarnarsel sem opnaði 18. ágúst 1967.
 

Mikil þróun hefur átt sér stað í leikskólastarfi og umhverfi

 
Tjarnarsel, eins og aðrir leikskólar, hefur þróast í takt við tímann og starfsemi, umgjörð, umhverfi og húsnæði hefur breyst mikið.
 
Lög um almenna barnagæslu voru fyrst sett árið 1973. Markmið laganna var einnig að jafna stöðu kynjanna á þessum tíma með viðurkenningu á því að dagvistun fyrir börn væri mikilvægur þáttur í nýrri samfélagsgerð. Fyrstu heilsteyptu lög um leikskóla voru sett árið 1991. Þá var heitið leikskóli tekið upp yfir þær stofnanir sem áður nefndust dagheimili. Fram að lagabreytingunni 1994 voru leikskólar og dagheimili að mestu leyti ætluð fólki sem af félagslegum ástæðum þurfti að hafa börn sín í daglangri vist. Leikskólinn hafði hinsvegar að vissu leyti almennara hlutverki að gegna. Þar áttu börn að geta verið í leikskóla í nokkra tíma á dag „bæði almennum þroska þeirra til eflingar og til hagsbóta fyrir foreldrana.“ Leikskólinn var formlega gerður að fyrsta skólastiginu og þar með settur inn í skólakerfið með lögum árið 1994.


 

Tjarnarsel - sýning