Kvenfélagskonur á Suðurnesjum með myndarlegt framlag í landssöfnun
Dagur kvenfélagskonunnar er 1. febrúar 2021. Á Suðurnesjum eru starfrækt fimm kvenfélög. Þau eru í Grindavík, Vogum, Keflavík, Garði og Sandgerði og í þeim eru starfandi rúmlega 300 kvenfélagskonur.
„Gjöf til allra kvenna á Íslandi“ er verkefni sem sett var af stað á síðasta ári í tilefni 90 ára afmælis Kvenfélagasambands Íslands og hefur staðið yfir söfnun frá 1. febrúar 2020.
„Það var lagt upp með að safna sem nemur 9.000 kr. á hverja skráða kvenfélagskonu eða 36 milljónum króna. Kvenfélögin á Suðurnesjum tóku þátt í þessu verkefni og hafa greitt 2,8 miljónir í söfnunina. Það er ljóst að aðstæður í heiminum hafa sett okkur í ýmsar skorður en um leið hvatt okkur til að fara út fyrir þægindaramman og hugsa hlutina upp á nýtt og finna nýjar lausnir. Kvenfélagskonur hafa sannarlega verið til fyrirmyndar og eiga stórt hrós skilið fyrir sitt óeigingjarna starf og framlag til samfélagsins,“ segir Sólveig Ólafsdóttir, formaður Kvenfélags Grindavíkur, í samtali við Víkurfréttum en söfnuninni lýkur formlega þann 1. febrúar næstkomandi. „Að þeim tíma loknum munum við afhenda söfnunarféð svo hægt sé að ganga frá pöntunum á þeim tækjum og hugbúnaði sem við höfum verið að safna fyrir.“
Kvenfélagskonur safna fyrir tækjum og hugbúnaði þeim tengdum, sem kemur til með að gagnast öllum konum um landið allt. Um er að ræða mónitora og ómtæki, nýja eða uppfærða eftir því sem við á, og rafrænar tengingar á milli landsbyggðar og kvennadeildar Landspítalans.
Þau munu nýtast öllum konum á Íslandi, hvort sem er við meðgöngu og fæðingu, eða skoðana vegna kvensjúkdóma. Tækin sem safnað verður fyrir geta aukið öryggi í greiningum og í mörgum tilfellum komið í veg fyrir að senda þurfi konur á milli landshluta vegna ýmissa óvissuþátta.
Kvenfélagskonur hafa stutt við Landsspítalann frá stofnun hans og staðið fyrir söfnunum á peningum og tækjum sem hafa komið sér vel fyrir fjölmarga þegna landsins.
Frjáls framlög má leggja inn á neðangreindan söfnunarreikning: 0513-26-200000 kt. 710169-6759
Frá árlegu boccia-móti sem íþróttarfélagið Nes stendur fyrir og kvenfélögin styrkja.
Félagskonur innan Kvenfélagasambands Gullbringu- og Kjósarsýslu, K.S.G.K., komu saman og gengu í Vogum á Vatnsleysuströnd.