Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Kvenfélagið gefur athvarfi fólks með geðraskanir góða gjöf
Miðvikudagur 2. nóvember 2005 kl. 16:44

Kvenfélagið gefur athvarfi fólks með geðraskanir góða gjöf

Kvenfélag Keflavíkur veitti Athvarfinu Björg góða gjöf á dögunum. Kvenfélagskonur komu færandi hendi með veglegar hillur og skáp undir ýmislegt sem við kemur starfi Bjargar, t.d. föndur og aðra handavinnu.

Athvarfið Björg, sem er starfrækt í Sjálfsbjargarhúsinu í Reykjanesbæ, er athvarf fyrir fólk með geðraskanir og opnaði 28. janúar á þessu ári. Athvarfið er samstarfsverkefni Fjölskyldu- og félagsþjónustu, svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Reykjanesi og Sjálfsbjargar á Suðurnesjum.
Þarfir fólks með geðræn vandamál eru misjafnar, sumir eru félagslega einangraðir en aðrir ekki. Fólk með geðraskanir er á öllum aldri og býr við mismunandi félagslegar aðstæður. Það er mjög mikilvægt að boðið sé upp á fjölbreytni í starfi athvarfsins, þar sem fólk hefur mismikla færni og ólík áhugasvið.
Markmið athvarfsins er meðal annars að rjúfa félagslega einangrun, efla sjálfstæði og auka samfélagsþátttöku fólks með geðræn vandamál. Skal það gert með uppbyggilegri félagslegri samveru, fræðslu, tómstundarverkefnum, persónulegum stuðningi o.fl.

Athvarfið er opið alla mánudaga til föstudaga frá klukkan 11 til 15. Boðið er upp á léttan hádegismat og að sjálfsögðu er alltaf kaffi á könnunni. Gestir athvarfsins borga 100 kr. á dag fyrir matinn.
Athvarfið er, sem fyrr segir, staðsett í Sjálfsbjargarhúsinu á Fitjabraut 6c í Reykjanesbæ. Í húsinu hafa verið starfrækir sjálfshjálparhópar fyrir fólk með geðraskanir. Fundirnir hafa legið niðri um tíma en munu nú byrja aftur og er fyrsti fundurinn í dag, 3. nóvember kl 20 og eru allir velkomnir þangað sem telja sig þess þurfa.

Þeir sem vilja fá frekari upplýsingar um starfsemi athvarfsins geta annaðhvort sent fyrirspurn á [email protected] eða hringt í síma 421-1806 á milli 11 og 15. Einnig er öllum velkomið að koma og kynna sér starfsemi athvarfsins.
Margir aðilar, fyrirtæki og félagasamtök hafa lagt starfseminni lið og er öll líðveisla vel þegin.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024