Kvaddi sem bæjarstjóri á afmælisdegi Reykjanesbæjar
Reykjanesbær varð 20 ára í gær og af því tilefni var starfsfólki ráðhúss bæjarins boðið til kökuveislu á bókasafninu. Við sama tækifæri kvaddi Árni Sigfússon samstarfsfólk sitt í embætti sem bæjarstjóri, eftir 12 ára setu. Í kveðjuræðu sinni lagði Árni áherslu á hversu mikið hafi áunnist í stærra, sterkara og sameinuðu sveitarfélagi. Vinnubrögðin sem þjálfuð hafi verið meðal starfsmannanna hafi skilað því sem raun bar vitni.
„Hóparnir sem staðið hafa á bakvið stór verkefni hafa verið tiltölulega fámennir í samanburði við önnur sveitarfélög,“ sagði Árni. Einnig var honum hugleikin ákvörðun þess hóps í kjölfar hrunsins að gefa 10-15% af vinnu sinni eftir hrun og það væri líklega einsdæmi. „Núna þegar ég kveð í þessu hlutverki er ég mjög bjartsýnn og trúi því að með ykkur er hægt að gera allt vel. Það kemur alltaf maður í manns stað.“
Fyrir hönd starfsmanna ráðhússins þakkaði Valgerður Guðmundsdóttir, framkvæmdastóri menningarsviðs, Árna gott samstarf og hafði sérstaklega á orði hversu mikill og drífandi leiðtogi hann hafi verið þessi tólf ár.
Lesa má meira úr ræðu Árna og viðtali sem Víkurfréttir tóku við hann í gær, í nýjasta tölublaðinu hér fyrir neðan.
VF/Eyþór Sæm og Olga Björt