Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Kúvending í skólastarfinu
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
sunnudaginn 19. apríl 2020 kl. 10:28

Kúvending í skólastarfinu

Það er vægast sagt undarlegt skólastarf sem fram fer í grunnskólum landsins á tímum faraldursins. Víkurfréttir höfðu samband við Hólmfríði Árnadóttur, skólastjóra í grunnskóla Sandgerðis, og fékk að vita stöðuna hjá þeim. 

Mjög ánægjuleg og góð samvinna allra

„Eftir tilkynningu um skert skólastarf settumst við stjórnendur niður og ákváðum strax að fá nemendur alla virka daga í skólann. Við settum upp skipulag þar sem viss hópur starfsfólks var með fastan nemendahóp í þrjár klukkustundir á dag. Nemendur koma og fara á mismunandi tímum og eru með frímínútur tvisvar á tímabilinu, ýmist inni eða úti. Þá lokuðum við mötuneytinu og höfum fengið sérpakkaða matarskammta sem umsjónarmaður telur inn í kennslustofur. Við skiptum starfsmannahópnum líka upp á þrjár kaffistofur eftir skólastigum, þar má stoppa stutt og halda tveggja metra fjarlægð. Við fækkuðum umgengnissvæðum og jukum þrif til muna. Strax á fyrsta degi tók starfsfólkið þessu verkefni vel eins og vaninn er hér í húsi, af fagmennsku, alúð og af krafti. Öllu skipulagi var kúvent, ný þemaverkefni og verkefni tengd tækni skipulögð og allt með það í huga að hluti nemenda ynni heima vegna áhættu eða tengsla við áhættuhópa.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Unglingarnir duglegir að læra heima

„Við sáum fljótlega að unglingastigið ætti hægara með að vinna heima og eftir fyrstu vikuna hafa þau verið heima að læra og það gengur vel. Skemmtilegt hefur verið að sjá aukna virkni og áhuga hjá þeim nemendum sem eru tækniliprari og við höfum öll stöðugt verið að læra. Foreldrar hafa upp til hópa verið samstarfsfúsir og haldið börnum sínum við efnið, skemmtilegar myndir hafa komið inn á bekkjarsíður af glöðum nemendum að vinna heimavinnu. Þá hefur verið góð stemning í skólanum þrátt fyrir óvenjulegt umhverfi og utanumhald en við erum á því að hraust börn eigi að koma í skólann frekar en að vera heima.“

Samveran góð þeim sem mæta í skólann

„Nemendur hafa gott af samverunni, aðhaldinu og vissulega aðgengi að kennurum enda er mikið um uppbrot, spurningakeppni, söngur, öðruvísi útivera og vinna í kennslustofum,“ segir Hólmfríður og bætir við: „Ég er hrikalega stolt af framlagi míns fólks, hér er jákvæðni, gleði og umhyggja fyrir nemendum í forgangi. Ég vil einnig hrósa nemendum, þeir eiga mikið hrós skilið fyrir að vera svona jákvæðir og vinnusamir á þessum skrítnu og í raun óhugnanlegu tímum. Margir eru óttaslegnir og við vitum í raun lítið um hvað verður en hér í skólanum dveljum við ekki við það heldur dreifum huganum, lærum, sköpum og höfum gaman saman.“

MARGT FLEIRA Í FJÖLBREYTTUM 76 BLS. VÍKURFRÉTTUM VIKUNNAR