Kúttmaginn fylltur með lifur, mjöli og hrognum
- Sjávarréttaveisla fyrir 7000 krónur og peningurinn fer í góð málefni
Meltingarfæri þorsksins eru í hávegum höfð á árlegu kúttmagakvöldi Lionsklúbbs Keflavíkur. Hundruðum maga hefur verið safnað saman af áhöfnum tveggja skipa sem nú hafa verið hreinsaðir og bíða þess að vera fylltir fyrir veisluna stóru sem haldin verður í lok mánaðarins.
„Þetta hefst þannig að við byrjum á að safna að okkur kúttmögum. Það gera aðallega tvær áhafnir, annars vegar á Erling KE og svo höfum við fengið 150-200 maga frá frænda mínum sem er á Verði EA frá Grenivík en hann veiðir mikið á Halamiðum og þar er fiskurinn aðeins smærri og kúttmagarnir þar af leiðandi minni. Við tökum alltaf einn laugardagsmorgun í að þrífa þetta en frystum þá svo aftur. Við setjum svo í þá fyllingu daginn fyrir hátíðarhöldin sem verða 26. febrúar,“ segir Lionsmaðurinn Hafsteinn Guðnason sem stóð í ströngu ásamt félögum sínum úr Lionsklúbbi Keflavíkur við hreinsun á kúttmögum í Saltveri í Njarðvík sl. laugardag.
- Hvað er sett í kúttmagann?
„Það eru aðallega þrjár sortir. Við setjum lifur en sumir vilja bara lifrarmaga og þá setjum við svona góðan lifrarbrodd í magann og hnýtum fyrir. Svo eru það mjölmagarnir þar sem við hrærum saman lifur og rúgmjöli. Svo höfum við núna í nokkur ár bætt hrognum í blönduna. Þá skerum við upp hrognið og tökum himnuna frá og hrærum hrogn saman við lifrar- og rúgmjölsblönduna. Þessi útfærsla hefur líkað alveg sérstaklega vel. Til viðbótar við þetta þá snúum við við hrognum, þannig að brækurnar aðskiljast og svo setjum við lifrar- og rúgmjölsfyllingu í hrognið. Svo þarf að vefja þetta með filmu áður en þetta er soðið og þetta er algjört sælgæti líka.
Það þarf að passa að sjóða þetta allt saman vel. Kúttmagana þarf að sjóða í klukkutíma og þrjú korter þannig að þeir verði mjúkir og fínir“.
Hafsteinn vildi koma á framfæri þökkum til áhafnanna á Erling KE og á Verði EA. Þá viljum við þakka Þorsteini Erlingssyni fyri að útvega okkur húsnæði til að vinna þetta og fyrir að skaffa okkur bæði hrogn og lifur. Stórkokkurinn Axel Jónsson í Skólamat og allt hans fólk sem sér um að elda þetta allt saman en auk kúttmagans þá verður eitt allsherjar sjávarréttahlaðborð. Hafsteinn segir að þeir sem vilja koma á kúttmagakvöldið geti haft samband við félaga í Lionsklúbbi Keflavíkur og fengið miða í veisluna. „Það er gjafverð að fá að komast á svona hátíð fyrir 7000 krónur en veislan verður í sal Frímúrara í Njarðvík föstudagskvöldið 26. febrúar. Kvöldið er öllum opið en í boði eru um 150 miðar í veisluna,“ segir Hafsteinn að endingu“. Allur ágóði af kúttmagakvöldinu fer í góð málefni sem Lions er þekkt fyrir að styðja.