Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Miðvikudagur 29. mars 2000 kl. 15:20

Kristnihátíð - 2000 á sunnudaginn

Kjalarnesprófastsdæmi stendur fyrir hátíð í Reykjanesbæ 2. apríl nk. í tilefni þúsund ára kristni á Íslandi. Hátíðin er samstarfsverkefni sveitastjórna og sóknarnefnda á Suðurnesjum og verður haldin í Reykjaneshöllinni. Menningardagskráin hefst kl.13:00 og stendur til kl.17:00.Boðið verður upp á tónlist, sýningar og fjölbreytt skemmtiatriði svo að allir ættu að geta skemmt sér vel og notið dagsins með fjölskyldunni. Tónlistarflutningur verður í umsjá Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, grunnskólabörn verða með sýningu í tilefni 1000 ára kristni, félagar úr KFUM og K sýna hökla, forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson og kirkjumálaráðherra, Sólveig Pétursdóttir flytja ávörp, Karlakór Keflavíkur flytur nokkur lög af alkunnri snilld og svo mætti lengi telja. Kynnar á hátíðinni verða Friðrik Friðriksson, leikari og María Rut Reynisdóttir. Hátíðarguðsþjónusta hefst kl. 14:30. Séra Gunnar Kristjánsson, prófastur, flytur upphafsorð og séra Sigurður Sigurðsson, vígslubiskup, predikar. Grunnskólanemendur af Suðurnesjum munu túlka guðspjall dagsins með leikverkinu Guði til dýrðar, undir stjórn Mörtu Eiríksdóttur. Á meðan á guðsþjónustunni stendur mun sérstakt Barnateppi verða starfrækt í umsjá fagfólks með börnum. Hátíðargestum verður síðan boðið upp á rjúkandi kaffi og gómsæta tertu sér til hressingar. Eldeyjarkórinn kemur þá fram ásamt gestakór, nemendur grunnskólans í Sandgerði verða með leikþátt og danssýningu og félagar í Leikfélagi Keflavíkur troða upp . „Kirkjusveifla“ hefst kl. 20 í félagsheimilinu Stapa og er hún í höndum landsþekktra tónlistarmanna frá Suðurnesjum. Einnig koma fram Gospelsystur og kór Keflavíkurkirkju. Stjórnandi er Einar Örn Einarsson, organisti og söngstjóri Keflavíkurkirkju. Herra Ólafur Skúlason biskup og sr. Björn Jónsson, fyrrverandi sóknarprestur verða heiðursgestir á Kirkjusveiflunni. Allir eru velkominir á fjölbreytta fjölskylduhátíð.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024