Kristján og Rúnar góðir í Keflavíkurkirkju - 8 ára söngvari bræddi hjörtu gesta
Fyrrverandi og verðandi tenórstjörnur, Kristján Jóhannsson, og nemandi hans, Keflvíkingurinn Rúnar Þór Guðmundsson slógu í gegn á Aðventukvöldi Keflavíkurkirkju í gærkvöldi en sá sem stal hjörtum nærri þrjú hundruð gesta sem troðfylltu kirkjuna, var átta ára söngvari úr Sandgerði, Júlíus Viggó Ólafsson.
Karlakór Keflavíkur opnuðu aðventukvöldið og söng nokkur lög og með honum söng Steinn Erlingsson einsöng auk fyrrnefnds Júlíusar sem söng lagið „Nú ljóma aftur ljósin skær“. Þeir Kristján og Rúnar Þór sungu svo í sitt hvoru lagi og síðan saman og með kórnum við mikla hrifningu gesta. Þeim þótti mikið til koma að sjá hinn fyrrum fræga stórtenór Kristján og síðan efnilegan nemanda hans sem virtist gefa meistaranum lítið eftir.
Í lokin sungu allir saman, söngvarar og gestir, „Heims um ból“.
Allur ágóði af aðventukvöldinu rann í Velferðasjóð Suðurnesja og allir flytjendur gáfu framlag sitt. Séra Sigsfús Ingvason sem átti hugmyndina að því að fá Kristján sem gest á þetta skemmtilega kvöld var að vonum í skýjunum með hvernig til tókst. „Ég vil bara nota tækifærið og þakka flytjendum og gestum fyrir þátttöku þeirra og stuðning við Velferðasjóðinn. Kvöldið var yndislegt,“ sagði Sigfús.
Sjá fleiri myndir frá kvöldinu í ljósmyndasafni vf.is hér.
Á efstu myndinni er Kristján í söngham með Karlakór Keflavíkur. Rúnar Þór Guðmundsson er á næstu mynd og síðan er kórinn með Júlíusi, 8 ára, á þriðju myndinni.