Kristján er mikil tilfinningavera
„Ég byrjaði að syngja mjög ungur með afa og fór út frá því í barnakór sem var starfræktur við kirkjuna í Grindavík,“ segir Anton Þór Sigurðsson, 25 ára Grindvíkingur og söngvari. Anton er þessa dagana á ferðalagi um Sviss með hópi tónlistamanna. Anton lærði á píanó og básúnu en endaði í söngnámi hjá Rósulind Gísladóttur við Tónlistarskólann í Grindavík. Árið 2012 fór Anton í Söngskóla Sigurðar Dementz þar sem hann lærir söng hjá hinum þekkta söngvara Kristjáni Jóhannssyni.
„Það er mjög gott að vinna með Kristjáni. Hann kann að láta mann koma öllu á stað og hugsar um okkur eins og sín eigin og hefur hann bætt miklu við kennsluna hjá okkur sem erum í námi hjá honum. Hann tekur virkan þátt í félagslífinum með okkur í skólanum og eldar gjarnan fyrir okkur á föstudögum til að þjappa hópnum saman. Hann er mikil tilfinningavera og þarf maður að fara varlega í hann,“ segir Anton og hlær.
Tónlistarlífið er gott í Grindavík að mati Antons. Hann segir flotta kennara kenna við tónlistaskólann en honum finnst vera mikil eftirsjá að ekki sé lengur starfrækt lúðrasveit eins og var á tímum Siguróla Geirs heitins og barnakór við kirkjuna. Anton er í hljómsveit sem heitir Gleðisveit Söngskóla Sigurðar D. Hljómsveitin er að fara spila saman í sumar á Goslokahátíð í Vestmannaeyjum.
Nýverið hélt Anton tónleika í Grindavíkurkirkju ásamt Höllu Marinósdóttir messósópran söngkonu, Steinþóri Jasonarsyni Baritón og Guðbjörg Sigurjónsdóttir undirleikar. Vel var mætt og var frítt inn í boði ýmissa fyrirtækja í Grindavík.
Nú fyrir skömmu opnaði svo Ragnar Kjartansson fjöllistamaður sýningu sína, An die Musik í Sviss. Verkið var sérstaklega samið fyrir foropnun Migros nýlistasafnsins í Zurich í nýuppgerðum heimkynnum þess. Í verkinu koma fram átta söngvarar, að meðtöldum höfundi verksins, Anton er þeirra á meðal og er þessa dagana staddur í Sviss.
Athygli vekur að allir söngvararnir í verkinu eru Íslendingar, og eru öll sem stendur í námi í klassískum söng, flest undir handleiðslu Kristjáns Jóhannssonar, tenórsöngvara. Þetta er að mestu leiti sami hópur og ferðaðist með Ragnari til New York á síðasta ári og flutti með honum verkefnið Bliss í Abronsleikhúsinu, við góðar undirtektir gagnrýnenda.
Mynd: Anton Þór Sigurðsson er vinstra megin á endanum. Aðrir á mynd: Birgir Karl Óskarsson, Erla B. Káradóttir, Aðalsteinn Már Ólafsson, Gunnar Björn Jónsson, Kristján Jóhannsson Stórtenór, Ragnar Kjartansson og Unnur Helga Möller.