Kristinn með Soð á Suðurnesjum
Keflvíkingurinn Kristinn Guðmundsson hefur vakið athygli fyrir skemmtilega matreiðsluþætti sem hann kallar Soð. Þeir hafa verið sýndir síðustu tvö ár í Sjónvarpi Símans og á Youtube. Ný þáttaröð verður sýnd á RÚV í haust og var fyrsti þátturinn á dagskrá fimmtudaginn 31. október. „Kristinn eldar þjóðlega rétti af alúð og klaufaskap en með fullri virðingu fyrir náttúrunni á svæðinu,“ segir í dagskrárkynningu um þættina.
Nýju þættirnir eru ferða- og matreiðsluþættir þar sem Kristinn ferðast með vini sínum, Janusi Braga, um heimaslóðir sínar á Reykjanesi og eldar fyrir hann. Að sögn Kristins fara þeir félagar um allt Reykjanesið. Í fyrsta þætti hittast þeir á Keflavíkurflugvelli og fara um gömlu herstöðina þar sem þeir elda „Smash Burgers“ að hætti Kanans með snúningi frá Villa pulsu.
En Kristinn hefur ekki bara verið við þáttagerð. „Ásamt þessari nýju seríu hef ég verið að vinna að nýju verki með danslistahópnum Marmarabörnum (Marble-Crowd) sem verður frumsýnt á stóra sviðinu í þjóðleikhúsinu í janúar næstkomandi.
Einnig er verið að sýna kvikmyndina Hvítur, hvítur dagur um þessar mundir þar sem ég var hægri hönd leikstjórans Hlyns Pálmasonar sem aðstoðarleikstjóri,“ sagði Kristinn.