Kristín Lea gengur Vonarstræti
- Keflvíkingurinn Kristín Lea leikur í nýrri íslenskri kvikmynd sem vakið hefur athygli
Leikkonan Kristín Lea Sigríðardóttir fer með eitt af stóru hlutverkunum í kvikmyndinni Vonarstræti sem vakið hefur töluverða athygli að undanförnu. Kristín Lea leikur Agnesi eiginkonu persónu Þorvaldar Davíðs í myndinni en hann leikur fyrrum atvinnumann í knattspyrnu sem nú starfar í bankageiranum. Kristín útskrifaðist frá kvikmyndaskólanum árið 2011 en þá vann hún lokaverkefni sitt með Baldvini Z sem leikstýrir myndinni Vonarstræti. „Við höfðum samband við hann á sínum tíma og náðum að plata hann til þess að taka þátt í lokaverkefninu okkar,“ segir Kristín hress í bragði. Það samstarf tókst vel upp enda vann stuttmynd þeirra verðlaun sem besta myndin við útskrift Kristínar.
Upphaflega stóð til að Kristín færi með minna hlutverk í Vonarstræti en á einni æfingunni var hún látin lesa fyrir eiginkonu bankamannsins og fyrrum knattspyrnuhetjunnar. „Eftir þann fund þá gekk ég í raun út með það hlutverk,“ segir Kristín sem fór þá að þróa með sér karakter fótbolta eiginkonu, eða „footballers wife,“ eins og það kallast á enskunni. Kristín segir það hafa gengið vel að móta karakterinn en hún sótti meðal annars í nokkrar fyrirmyndir hér á Íslandi. „Agnes er sterk og ákveðin kona. Hún er mjög klár, fjölskyldan er henni allt enda og hún stolt af sínum manni og stendur þétt honum við hlið. Við fáum svo að fylgjast með hvernig samband þeirra þróast þegar allt er á niðurleið.“
Myndin er dramatísk en þó með kómísku ívafi, en Kristín segir að allra tilfinningaríkustu atriðin hafi ekki endilega verið þau erfiðustu að leika í. „Oftast er bara hreinlega erfiðast að vera sem eðlilegust og bara leyfa sér að vera,“ segir hún og hlær. ,,Leyfa litlu fallegu hlutunum að lifa, mikið er ekki endilega alltaf best,“ bætir hún við. „Baldvin leikstjóri er eins og galdramaður. Hann nær til allra leikara á einstakan hátt, bæði þeirra reyndu og svo til leikara sem eru að stíga sín fyrstu skref, eins og ég.“
Kærastinn sýnir mikinn stuðning
Kristín átti eins og gefur að skilja nokkrar innilegar senur með Þorvaldi Davíð og margir hafa spurt að því hvort kærastinn sé sáttur við atriðin með hjartaknúsaranum. „Vigfús kærastinn minn vann líka við framleiðslu myndarinnar og er í þessum bransa. Mig langar að þakka honum opinberlega fyrir allan stuðninginn. Fólk hefur ósjaldan spurt hvort honum finnist þetta ekki óþægilegt að ég sé að leika á móti Þorvaldi í erfiðum senum og svo framvegis. Hann skilur sem betur fer þessa vinnu svo vel og sýndi 110% stuðning allan tímann. Ég gæti ekki verið heppnari,“ segir Kristín og brosir.
Kristín hefur unnið að ýmsum verkefnum en hún og kærasti hennar eru bæði í kvikmyndabransanum eins og áður. Hún segir að það geti verið heilmikið puð að vera í þessum bransa sem er frekar magnaður að hennar mati. Stundum er ekki neitt að gera en stundum er nóg um verkefni. Oft verði að búa sér til verkefni sjálfur og það gerir Kristín Lea, en ásamt því að leika skrifar hún handrit og framleiðir.
Kristín Lea og Þorvaldur Davíð Kristjánsson leika hjón í myndinni Vonarstræti.
Hormón á forsýningu
Kristín segir Vonarstræti líklega vera eina af bestu íslensku myndunum sem komið hafa út í langan tíma. „Svona ef ég reyni að vera alveg hlutlaus,“ segir hún og hlær. Hún hefur miklar mætur á Baldvini leikstjóra. „Hann myndar sérstakt samband við leikarana, sem býr til einstakt traust. Það var eiginlega það sem ég leitaði í þegar leið að forsýningu í öllu stressinu. Ef ég efaðist eitthvað um mína frammistöðu í myndinni, en auðvitað hugsar maður oft að maður hefði getað gert hlutina betur, þá gat ég alltaf stutt mig við það að Baldvin myndi aldrei birta senu nema hann væri ánægður.“ Á forsýningu á dögunum segist Kristín hafa átt erfitt með sig. „Ég var rosalega uppspennt á hátíðar forsýningunni og náði ekki almennilega að byra að njóta myndarinnar fyrr en ég náði aðeins að slaka á seinni helminginn. „Svo eru auðvitað hormónin í botni,“ segir hún og hlær en Kristín á von á sínu öðru barni á næstu dögum.
Einnig ber Kristín samstarfsfólki sínu vel söguna en hún fékk tækifæri til þess að kynnast fjöldanum öllum af hæfileikaríku fólki. „Ég fékk að kynnast yndislegu fólki við gerð myndarinnar. Þetta væri ekki hægt nema fyrir hvern og einn sem tók þátt við gerð myndarinnar,“ segir Kristín að lokum. Myndin fer í almennar sýningar um helgina.
Um myndina Vonarstræti
Vonarstræti fjallar um óvæga fortíðardrauga, þöggun, sársauka og syndaaflausn. Myndin segir frá þremur ólíkum persónum sem reyna að fóta sig í íslensku samfélagi á árunum rétt fyrir hrun og því hvernig örlög þeirra fléttast saman á áhrifaríkan máta. Gömul og ný leyndarmál hrinda aðalpersónunum hverri í átt að annarri í hörkuspennandi og átakanlegri atburðarás sem lætur engan ósnortinn. Kvikmyndin er innblásin af sönnum atburðum og áhorfendur gætu því kannast við tilteknar aðstæður, persónur eða atburði úr raunveruleikanum, enda ekki langt um liðið síðan útrásin stóð sem hæst.
Mynd/Eygló Gísla.