Kristín Björk fyrsta konan í Slökkviliði Grindavíkur
Kristín Björk Ómarsdóttir er fyrsta konan til þess að komast í Slökkvilið Grindavíkur. Hún lauk námi í Brunamálaskólanum í sumar.
„Mig langaði alltaf í björgunarsveit þegar ég var yngri. En þá voru stelpurnar ekki komnar þangað inn, nema í kvennadeildina, og ég hafði engan áhuga á því. Ég sá auglýsta stöðu í slökkviliðinu og ákvað að prófa að sækja um. Það hefur alltaf blundað í mér að fara í slökkviliðið og skipti engu máli þótt ég yrði eina stelpan. Ég er svo mikill strákur í mér,“ segir Kristín Björk og hlær.
Slökkvilið Grindavíkur er vel tækjum búið og hefur á að skipa vaskri og öflugri sveit slökkviliðsmanna. Kristín Björk segir að hún hafi fengið frábærar móttökur hjá strákunum og hópurinn sé alveg einstakur.
„Það sem hefur komið mér mest á óvart er að eldur er ekki bara eldur heldur er hann marg slungið fyrirbæri sem þarf að nálgast á mismun-andi hátt. Æfingarnar eru skemmtilegar hjá okkur en ég hef enn ekki farið í alvöru útkall. Ég veit að það kemur eflaust að því og þá er mikilvægt að vera vel andlega undirbúinn," segir Kristín Björk.
Hún vonast til þess að sjá fleiri konur í slökkviliðinu í framtíðinni. Vaktir eru yfir sumartímann en bakvaktir yfir vetrartímann og svo reglulegar æfingar „með þessum frábæru strákum" eins og Kristín Björk komst að orði.
Texti og mynd: Vefur Grindavíkurbæjar.