Kristbergur og Þórður með leiðsögn í Listasafni Reykjanesbæjar
Sunnudaginn 24. nóvember kl. 15.00 munu þeir Kristbergur Ó. Pétursson og Þórður Hall leiða gesti í gegnum sýningu sína, Endurfundir, sem var opnuð þann 1. nóvember sl. í sýningarsal Listasafns Reykjanesbæjar í Duushúsum.
Báðir eiga listamennirnir sér sterkar rætur í því náttúrulega umhverfi sem þeir eru sprottnir upp úr, Þórður í reykvísku landslagi á mörkum byggðar og óbyggðar, þar sem víðáttur og hafflötur dreifa og endurkasta birtu þannig að sjónheimur vegur salt milli veru og óveru, Kristbergur í myrku og hrikalegu hraunlandslaginu í Hafnarfirði, þar sem ljósið er lífgjafi, í eiginlegum jafnt sem óeiginlegum skilningi. Annað eiga þeir einnig sammerkt, nefnilega áhugann á helstu virkjunarmönnum ljóssins í heimslistinni, ekki síst Turner, en Kristbergur hefur einnig sótt innblástur til Tizianos og Rembrandts.
Kristbergur og Þórður hafa báðir verið virkir í heimi myndlistarinnar um langan tíma og eru báðir vel þekktir málarar samhliða því sem þeir hafa sinnt kennslu og ýmsum öðrum störfum tengdum myndlist. Þeir hafa sýnt víða, bæði hér og erlendis en þetta er fyrsta samsýning þeirra. Sýningarstjóri er Aðalsteinn Ingólfsson.
Sýningin stendur til 15. desember. Safnið er opið virka daga kl. 12.00-17.00, helgar kl. 13.00-17.00. Ókeypis aðgangur.