Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Kringum hnöttinn á átta mánuðum
Fimmtudagur 23. ágúst 2007 kl. 16:16

Kringum hnöttinn á átta mánuðum

Grindvísku frændurnir Rúnar Berg Baugsson og Skúli Pálmason ráðast ekki á garðinn þar sem hann er lægstur. Eftir eina viku leggja þeir af stað í heimsreisu um fjórar heimsálfur og stefna ekki á heimkomu fyrr en eftir átta mánuði. Þeir segja að það sé ævintýraþráin sem reki þá út í þetta langa ferðalag. Frændi þeirra, Þórður Snær Júlíusson, hefur farið í álíka reisu og gaf þeim góð ráð við skipulagninguna.

Í ferðalaginu verður stoppað í fjöldamörgum löndum. Fyrst koma þeir við í flestum löndum Mið- og Suður-Ameríku, þaðan ætla þeir til Páskaeyju og Tahiti, því næst til Nýja Sjálands og Ástralíu og svo upp í gegnum alla Suð-Austur Asíu. Lokahnykkur ferðarinnar er svo að taka Síberíuhraðlestina frá Peking til Moskvu og þaðan heim.

Undirbúningur ferðarinnar hefur staðið í eitt ár og hafa strákarnir þurft að fá margar vegabréfsáritanir og fara í fjöldamargar sprautur til að vera við öllu búnir í ferðinni. Þó segjast þeir ekki vilja plana ferðina of mikið og því er óráðið hversu lengi þeir munu stoppa á hverjum stað og meira að segja hvar þeir muni gista. "Við erum bara búinn að bóka fyrstu tvær næturnar sem við gistum í London," segir Rúnar og af svipnum að dæma þykir þeim mjög spennandi að fara út í óvissuna. Búast þeir við að ferðin muni kosta rúma eina milljón á mann og hafa þeir unnið fyrir henni á þessu ári sem undirbúningurinn tók.

Rúnar segist vilja prófa brimbretti og Skúli er mjög spenntur fyrir teygjustökki, en þess utan geta þeir varla sagt hvað þeir hlakki mest til að upplifa í ferðinni, af nógu er að taka. Frændurnir segja að flestir sem hafi frétt af ferðalagi þeirra hafi verið öfundsjúkir, og skal engan undra því það eru ekki allir sem geta tekið sér átta mánuði í að ferðast um heiminn. Strákarnir ætla að leyfa fólkinu hér heima að fylgjast með og munu reglulega skrifa pistla hér á vf.is og senda inn myndir.

Mynd: Rúnar og Skúli, viku fyrir reisuna miklu. Vf-mynd: Magnús Sveinn.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024