Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Krían heldur heim  eftir vel lukkað varp
Sunnudagur 15. ágúst 2021 kl. 15:28

Krían heldur heim eftir vel lukkað varp

– Fuglaáhugamenn hafa áhyggjur af fjölda unga á vegi um varplandið

Núna er krían að undirbúa brottför frá Íslandi. Hún er þessa dagana að fita sig fyrir ferðalagið suður á bóginn en nóg æti virðist vera í hafinu við Suðurnes. Ungarnir eru að mestu orðnir fleygir en ekki enn komnir með mikla flughæfni. Í byrjun september er kríunni farið að fækka verulega en einstaka kríur geta verið hér fram í október. Þeir Guðmundur Falk og Hannes Þór Hafsteinsson eru miklir fuglaáhugamenn og fylgjast daglega með fuglalífinu á Suðurnesjum. Víkurfréttir hittu þá að máli í einu myndarlegasta kríuvarpi landsins við Norðurkot í Sandgerði.

Mikið af sandsíli fyrir kríuna

„Krían er í góðu standi núna. Það er mikið af sandsíli og enginn makríll að éta það frá kríunni. Það er mikið betri afkoma í uppeldi á ungunum og það er afgerandi þáttur að það ver nóg af síli,“ segir Guðmundur í samtali við Víkurfréttir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

– Menn álykta það að fyrst ekki er makríll, þá er nóg af sandsíli?

Guðmundur: „Það er bara staðreynd. Makríllinn er algjör alæta. Nú er mikið af kríu og nóg af ungum því varpið hefur stækkað og er miklu fjörugra en það var í fyrra. Það er líka mikið af kríu á veginum hér í varplandinu. Það neikvæða er að ungarnir eru keyrðir niður og drepnir en þessi fjöldi á veginum er gott merki um að það er mikið af kríu. En fólk er ekki að fara nógu varlega hér í gegnum varpið.“

Hannes Þór býr í Lyngseli, skammt frá kríuvarpinu.

„Ég sé oft bíla koma á mikilli ferð fram hjá og keyra í gegnum svæðið þar sem fuglarnir eru á veginum. Það hafa verið taldir allt upp í fimmtíu dauðir ungar á einum degi og það er grátlegt að horfa upp á þetta og sérstaklega unga sem eru særðir. Maður sér þá helsærða eða ófleyga. Svo eru foreldrarnir að mata þá í fleiri daga á eftir, þannig að það er sorglegt að horfa upp á þetta,“ segir Hannes.

Félagarnir Hannes Þór og Guðmundur Falk eru miklir áhugamenn um fuglalíf.

Koma sérstaklega frá útlöndum til að mynda kríu

– Þið eruð miklir fuglaáhugamenn og þetta er gríðarlega vinsæll staður til að koma og fylgjast með fuglalífinu. Hingað koma margir til þess að sjá og heyra í fuglum.

Guðmundur: „Það er mikið um að hingað komi ferðamenn til að sjá fugla. Fuglaáhugamenn koma einnig hingað erlendis frá gagngert til að mynda kríur og þessir áhugamenn eru að eyða miklum upphæðum í þetta áhugamál. Eru með flottar græjur og á flottum gistibílum. Svo er þessi almenni ferðamaður með símana á lofti.“

Hannes: „Íslenskir fuglaskoðarar sækja mikið hingað til Suðurnesja og ef það fréttist af sérstökum fuglum þá koma menn víða að, jafnvel frá Bretlandi. Menn gera sér ferðir hingað til lands sérstaklega til að sjá einn ákveðinn fugl.“

Þeir félagar hafa áhyggjur af fugladauðanum á þjóðveginum og hafa sínar skýringar á honum. Ferðamenn séu uppteknir af umhverfinu sem þeim finnst fallegt og ekki í boði alls staðar erlendis og þeir gleyma sér bara og ekki að horfa á veginn og átta sig ekki á að þeir hafi ekið yfir unga. „Það væri gott að fá góð skili á þremur tungumálum, íslensku, ensku og þýsku og mögulega einhverja hraðahindrun sem hægt væri að færa þegar varptímanum er lokið,“ segir Guðmundur.

Víða góður árangur hjá kríunni

– Hafið þið fylgst með kríunni annarsstaðar á Suðurnesjum eða úti á landi? Er staðan almennt góð?

Guðmundur: „Já, það er góður gangur í Ólafsvík. Á Snæfellsnesinu er sama vandamálið, það er verið að keyra niður mikið af fugli. Við hafrannsóknarstöðina að Stað við Grindavík er mjög góður gangur í kríuvarpinu en það er búið að keyra yfir óhemju af fugli þar líka. Það er þokkalegt varp í Höfnum sem er ekki mikið rannsakað. Það er nýlegt, kannski fjögurra til fimm ára gamalt varp og það er að stækka gríðarlega. Það er á góðum stað í Ósabotnum á melum þar og enginn að keyra yfir neitt.“

Sá 42 tegundir á fimmtán mínútum

Hannes Þór hafði búið meira og minna allt sitt líf á höfuðborgarsvæðinu en það var fuglalífið sem dró hann suður með sjó og í Lyngsel við Stafnesveginn. Eftir að hafa séð húsið auglýst til sölu hafi hann slegið til og það hafi fyrst og fremst verið náttúran og fuglarnir.

„Í vor sat ég úti á sólpalli við húsið og á fimmtán mínútum sá ég 42 fuglategundir og bara fyrir utan húsið hjá mér verpa átta tegundir af spörfuglum. Svo er þar rjúpa og þá sé ég stundum branduglu og jafnvel ref, þannig að þetta er mjög skemmtilegt,“ segir Hannes Þór.

Hannes segir að refurinn þori ekki í kríurnar en hann sé utan við varpið.

Vetrartittlingur er amerísk tegund sem hefur aðeins sést tvisvar á Íslandi. Fyrst 1955 að Hofi í Öræfum og svo þessi fugl sem Guðmundur Falk einn náði að mynda 2020 og sá hann líka eftir áramót þ.e.a.s. í febrúar á þessu ári.

Um 100 tegundir með vetursetu á Íslandi

Þeir Guðmundur Falk og Hannes Þór eru báðir að mynda fugla þó svo Guðmundur sé stórtækari í því. Mest eru þeir að mynda farfugla en einnig fugla sem hafa hér vetursetu en talið er að um eitt hundrað tegundir fugla hafi vetursetu á Íslandi. Í vetrartalningum eru að sjást um 90 tegundir sum árin og það eru alltaf einhverjir fuglar sem skila sér ekki í talningum.

Guðmundur er alltaf með myndavélina við höndina og þegar hann er spurður hver sé uppáhalds fuglinn, þá er hann fljótur að svara. Fuglinn sé ekki ennþá kominn til landsins og ekki vitað hvort hann komi. „Það er draumurinn að mynda og sjá kardinála á Íslandi. Ég veit ekki hvernig það fer, það getur allt gerst.“

Rósastari er sjaldgæfur flækingsfugl á Íslandi og hefur sést meðal annars í Vestmannaeyjum, Garðinum og Suðursveit. Rósastari sást fyrst á Íslandi í Öræfum árið 1934. Heimkynni rósastara eru í Litlu-Asíu, við Svartahaf og austan við það. Þessi á myndinni var myndaður við Norðurkot í vikunni.

Bleikur stari frá suðaustur Evrópu

Guðmundur var nýbúinn að mynda sjaldséðan fugl á Íslandi þegar við hittum hann að máli á mánudagsmorgun. Hann smellti mynd af rósastara við Norðurkot. Hann er bleikur á litinn og verpir vanalega í suðaustur Evrópu. „Það var ganga núna í Evrópu af þessum fuglum og eitthvað af þeim kom hingað,“ segir Guðmundur en rósastarinn hefur sést í Vestmannaeyjum, á Suðurlandi og Suð-austurlandi. „Núna var hann hér við Norðurkot en hann sást einnig á sama stað í fyrra.“

Tegundir fugla í suður Evrópu eru að færa sig norðar og það þýðir að þeim fer fjölgandi á Íslandi. Fuglar eru farnir að verpa á Bretlandi sem voru ekki þar áður og það virðist vera að sumir af þessum stofnum séu að færa sig norður á bóginn. Guðmundur byrjaði að mynda fugla árið 2014 og þá voru tegundirnar á Íslandi um 390 talsins en í dag eru þær 410 sem hafa sést hérna.

Tyrkjadúfa. Þessi fugl er algengur við Miðjarðarhafið og Suður evrópu en hefur verið að nema lönd norðar í álfunni og hefur orpið í einhver skipti á Íslandi. Síðasta sumar kom par upp sex ungum í garði í Keflavík. Þessi  fugl sem myndinni er af er sennilega einn af þeim fuglum og hefur verið í Sólbrekku í sumar.

Tyrkjadúfa með unga í Keflavík

Dæmi um nýja landnema þá hefur tyrkjadúfa sést með unga í Keflavík en hreiður hefur ekki fundist. Hún var bundin við Tyrkland og suðurhluta Evrópu fyrri hluta síðustu aldar. „Svo varð bara sprenging og eitthvað gerðist og dúfan fór að verpa um alla Evrópu og við erum núna að vonast til þess að hún fari loksins að setjast að á Íslandi,“ segir Hannes Þór.

Guðmundur segir í undirbúningi að stofna félag fuglaskoðunarmanna á Suðurnesjum og Hannes Þór bætir við að á Íslandi séu á milli fimmtíu og eitt hundrað virkir fuglaskoðarar. Aðspurðir segja þeir að fuglaskoðunin sé daglegt sport hjá þeim. Þá eru ótaldar þær þúsundir sem fara út í náttúruna til að njóta fuglalífs eða skoða fugla út um stofugluggann hjá sér þegar þeim er gefið yfir vetrarmánuðina.

Klifurskríkja  hefur vetursetu í suðurríkjum Norður Ameríku og alveg suður til Suður Ameríku. Hún fer á sumrin norður á bóginn til norðurfylkja Norður Ameríku og Kanada. Þessi þvældis hingað í vor og er enn á Snæfellsnesinu. Hún er ekki nema 11 til 13 sm  og er þetta  í fjórða sinn sem hún sést en áður sást hún 1970, 1991 og 2020.

Moldþröstur er amerískur þröstur,  talsvert minni en skógarþröstur og hefur sést nokkrum sinnum á landinu. Þetta var minn fyrsti og var hann í Sólbrekku síðastliðið haust, 2020.

Bakkasvala er beggja vegna Atlantshafsins  í Ameríku, víða um Evrópu og við  Miðjarðarhaf.  Hefur farið fjölgandi sem flæking á Íslandi.

Grastítan er amerískur vaðfugl sem fer í farflug gegnum Mið Ameríku og norður til Kanada og Alaska. Hún sækir ekki mikið í fjörur en er hrifinn af snöggslegnum túnum og sést oft í námunda við golfvelli.Þessi grastíta var mynduð í júlí við Ásgarð í Suðurnesjabæ.

Sportittlingur er varpfugl í Grænlandi en sjaldgæfur fargestur eða flækingur á Íslandi. Sportittlingur hefur orpið hér stöku sinnum og fyrsta merki um varp hans á Íslandi nálægt Látrabjargi árið 2007. Sportittlingur er skyldur snjótittlingi  sá sem er á myndin er einn af tveimur sem voru á grjótgarðinum neðan Miðhúsa í Garði  fyrr í sumar.

Mærutíta.

Gulllóa.