Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

„Krakkarnir okkar“
Laugardagur 24. október 2015 kl. 07:00

„Krakkarnir okkar“

Síðustu vikur hefur verið mikið líf og fjör í tónlistarstofunni í Myllubakkaskóla á kvöldin. Þar er verið að æfa og æfa fyrir tónleika sem haldnir verða næstu mánaðamót. Tilefni þessara tónleika er að í upphafi þessa árs voru liðin tíu ár frá því að vinkonurnar Freydís Kneif Kolbeinsdóttir, Gunnheiður Kjartansdóttir og Íris Dröfn Halldórsdóttir unnu fyrst saman að leiklistarverkefni. Þá höfðu þær í einhver ár áður unnið að svipuðum verkefnum á ólíkum vettvangi. Þær unnu á þessum tíma allar í Myllubakkaskóla og þar byrjaði ævintýrið.  

Af hverju þessir tónleikar?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Af hverju ekki? Við vorum búnar að hittast oft og ræða hvað við vildum gera en vorum ekki að ná lendingu með það. Við vorum þó allar sammála því að skemmtilegt væri að gera eitthvað. Við höfum í gegnum árin sett upp margar sýningar, söngleiki og tónleika ýmiskonar auk þess sem við höfum stýrt krökkum í alls kyns skemmtiatriðum. Þessi vinna hefur gefið okkur alveg svakalega mikið. Fyrir utan þroska, reynslu og góða þjálfun í félagsfærni höfum við safnað að okkur ógrynni af frábærum minningum sem eru dýrmætar og eignast góða vini í mörgum af þeim krökkum sem við höfum verið svo lánsamar að fá að vinna með. Við höfum nokkrum sinnum unnið að verkefnum með grunnskólakrökkum og þá fengið með okkur krakka sem áður höfðu verið með og voru komnir í framhaldsskóla. Flestir þessir krakkar hafa bara fengið leikhúsbakteríuna sem er í mörgum tilfellum alveg bráðsmitandi og geta ómögulega slitið sig frá svona vinnu. Okkur finnst það sko ekki leiðinlegt og fögnum hverju skipti sem við hittumst. Þetta er bara svo ofsalega skemmtilegt. Og þess vegna varð niðurstaða okkar sú að skemmtilegast væri að setja upp tónleika og reyna að fá með okkur krakka úr öllum verkum sem við höfum unnið að. Feimnar og óöruggar ákváðum við að senda krökkunum línu  og athuga hvort einhverjir væru ekki til. Það kom okkur skemmtilega á óvart að krakkarnir tóku alveg ótrúlega vel í þetta. Við völdum svo inn hóp grunnskólakrakka sem hentuðu í þetta verkefni. Flestir þeirra hafa unnið með okkur áður en eins og alltaf eru líka nokkur ný andlit í hópnum. Hópurinn sem við vinnum nú með telur 44 frábæra krakka á aldrinum 6-28 ára. Við vitum að þegar maður er kominn vel yfir tvítugt er maður eiginlega ekki lengur krakki en í okkar huga eru þau öll krakkar, þetta eru krakkarnir okkar. Við erum svo ánægðar með að fá að upplifa þetta með þeim. Þetta er einskonar uppskeruhátíð þar sem við lítum saman um öxl, iljum okkur við skemmtilegar minningar og njótum þess að fá að endurskapa nokkrar þeirra. Við æfum nú alla daga enda margt sem þarf að æfa þegar lagalistinn telur átján lög. Þetta er farið að hljóma svaka vel og við erum ofsa spenntar og alveg sannfærðar um að þetta verður æði.

Hvar og hvenær verða tónleikarnir?

Tónleikarnir verða haldnir í Kirkjulundi og verða þeir fluttir þrisvar þessa helgi. Þeir fyrstu verða föstudaginn 30. október kl. 20 og hinir laugardaginn 31. október kl. 16 og kl. 20.  Aðgöngumiðinn kostar 2000 krónur og er miðasala í síma 695-3297. Tryggið ykkur miða og komið og njótið með okkur.