Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Fimmtudagur 30. janúar 2003 kl. 13:08

Kraftmikið hús opnar í Sandgerði á laugardaginn

Hjónin Marta Eiríksdóttir og Friðrik Þór Friðriksson festu kaup á gamla Kaupfélagshúsinu í Sandgerði í lok júlí árið 2002, en húsið er tæpir 400 fermetrar að stærð. Gamla Kaupfélagshúsið hafði staðið autt í eitt ár þegar þau keyptu húsnæðið og síðustu 6 mánuði hafa Marta og Friðrik staðið í endurgerð húsnæðisins. Þau búa í Sandgerði og segja að með því að koma Púlsinum af stað séu þau að láta gamlan draum rætast og um leið að láta eitthvað gott af sér leiða fyrir samfélagið í Sandgerði. Á laugardaginn verður Púlsinnn formlega opnaður og er opið hús fyrir alla frá klukkan 14 - 17.Hvað fær fólk til að fara út í svona framkvæmdir?
Við höfum bæði unnið mikið með börnum og unglingum í gegnum tíðina og áttum með okkur leyndan draum um svona stað, þar sem fólk á öllum aldri gæti komið og fengið öðruvísi útrás fyrir kraftinn innra með sér. Okkur fannst vanta svona stað hér á Suðurnesin. Þetta er stórt íbúasvæði með fullt af öflugu fólki og margir fá allt of sjaldan almennilega útrás. Okkur langar til að krydda tilveruna hjá fullorðnu fólki meðal annars með Tangó dansi og okkur langar til að gefa ungu fólki tækifæri til að láta ljós sitt skína í leiklist, dansi, söng eða tónlist. Við veljum að kenna margt í Púlsinum sem er óhefðbundið og fæst ekki annars staðar.
Hvernig hefur fólk tekið hugmyndinni að Púlsinum?
Við höfum fengið frábærar viðtökur og okkur finnst fólki langa til að taka þátt í þessu ævintýri.
Hvað verður nákvæmlega í boði þarna?
Þarna verður leiklist, söngur, afró trommu námskeið, afró dans, jógaleikfimi, leikfimi, kraftganga, dansspuni, orkudans, tangó, kórskóli m.a. og svo eru ýmis spennandi helgarnámskeið framundan. Þar má fyrst nefna dagsnámskeið með Þorbjörgu Hafsteinsdóttur, næringarþerapista um nýjar leiðir í heilsueflingu og nefnist það Megrun er úrelt! Ole Vildman danskur námskeiðshaldari kemur með spennandi námskeið sem nefnast Villt hjörtu og Ástareldur, Lone Rud kemur með námskeið fyrir börn og unglinga og svo tónlistarkennara eða aðra sem hafa gaman af tilraunamennsku í tónlist, sem nefnist Stomp og steinar. Svissnesk hjón verða með all nýstárlegt námskeið sem nefnist Pulsor en þar er unnið með jöfnun rafsegulsviðs líkamans, nokkurs konar nálastungulækningar án nála. Þetta námskeið er eingöngu fyrir fólk sem er að meðhöndla annað fólk. Annars veitir heimasíðan okkar öllum sem þangað sækja mjög nákvæmar upplýsingar um öll námskeiðin www.pulsinn.is
Á vefsíðunni er talað um listræna mannrækt, hvað er það?
Okkur finnst listræn mannrækt felast í leiklistinni, dansinum, söngnum og því að búa til tónlist og auðvitað einnig að mála myndir eða teikna og skrifa. Hver manneskja býr yfir listrænum hæfileika sem hún þarf að fá útrás fyrir. Það er síðan hennar verkefni að finna út hvaða listgrein hentar. Sumir segja að maður verði aldrei fyllilega glaður ef maður fær ekki útrás fyrir hæfileika sína.
Hvenær verður fyrsta leiksýningin sett upp?
Það verða margar margar litlar leiksýningar í hverri viku á hverju námskeiði. Við erum með lítið leiksvið sem hentar litlum sýningum. Annars er hugmyndin að fá aðkeyptar sýningar einnig og uppákomur margskonar. Allt í ofninum!
Eruð þið bjartsýn á framtíðina?
Já, við verðum að vera bjartsýn og jákvæð til þess að fara út í svona framkvæmdir.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024