Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

  • Krabbamein sjaldnast dauðadómur
  • Krabbamein sjaldnast dauðadómur
Sunnudagur 12. október 2014 kl. 10:00

Krabbamein sjaldnast dauðadómur

Olga Björt Þórðardóttir skrifar.

Líklega þekkjum við öll einhvern sem hefur fengið krabbamein. Margir hafa sigrast á þessum algenga sjúkdómi og lifað góðu lífi síðan. Í mörgum tilfellum hefur meinið þó því miður haft betur og kærir ástvinir kvatt of fljótt eftir erfiða baráttu.

Hvort sem um er að ræða veikindaferli sem endar vel eða illa snertir það ekki einungis sjúklinginn heldur einnig aðstandendur hans. „Fjölskyldur verða oft dofnar þegar einhver innan þeirra greinist með krabbamein. Einnig er tímabilið oft erfiðara fyrir aðstandendur en sjúklinginn,“ segir Helga Steinþórsdóttir hjá Krabbameinsfélagi Suðurnesja, í viðtali í nýjasta tölublaði Víkurfrétta.

Krabbameinsfélagið vill vera til staðar fyrir báða hópana því dagarnir eru langir hjá þeim sem greinast og mikil bið. „Við viljum auðvelda þeim biðina,“ segir Helga og nefnir til viðmiðunar starfsemi Ljóssins í Reykjavík. Þangað eru allir velkomnir og geta fengið svör við þeim fjölmörgu spurningum sem eðlilegt er að komi upp í krabbameinsferlinu.

Sem aðstandandi krabbameinssjúklings viðurkennir undirrituð fúslega að vera oft ringluð, áttavillt í öðrum hlutverkum og eiga suma daga erfitt með að vita hvernig líðanin á að vera. Ég hef fundið að ég þarf á því að halda að geta tjáð mig og er meyrari og grætnari en venjulega. Ég veit samt líka að það er eðlilegt að taka út svona ferli á jafn ólíkan hátt og við erum mörg. Og við megum það. Hjá Ljósinu og Krabbameinsfélaginu er hægt að sækja sér stuðning og fræðslu sem eru svo mikilvæg til að fara sem best með sig og sína.

Í viðtalinu mælir Helga einnig með því að fólk leiti sér upplýsinga um sjúkdóminn hjá Krabbameinsfélaginu í stað þess að „gúgla“. „Flestir tengja krabbamein við dauða, sem er miklu sjaldnar niðurstaðan, eða að lenda í miklum erfiðleikum.“

Október er bleikur mánuður þar sem lögð er áhersla á árvekni og forvarnir í tengslum við krabbamein. Mánuðurinn er í raun einnig tilvalinn til að sækja sér fræðslu um aðferðir til að láta sér líða eins vel og hægt er - hvort sem maður er sjúklingur eða ástvinur hans.
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024