Kötturinn sleginn úr tunnunni
Krakkarnir hafa látið sig hafa það að ferðast grímuklædd á milli fyrirtækja og syngja fyrir sykruð verðlaun þrátt fyrir kulda og snjó. Að venju eru búningarnir fjölbreyttir og hafa hinar ýmsu furðuverur heimsótt Víkurfréttir í dag.
Í dag var öskudagshátíð í Reykjaneshöllinni þar sem fjöldinn allur af krökkum í öskudagsbúningum, ásamt foreldrum, skemmtu sér konunglega. Þar var kötturinn sleginn úr tunninni, hoppukastalar, trampolín og andlitsmálun. Tónlistarskóli Reykjanesbæjar sá um framkvæmdina og voru þau ekki síður skrautleg.
Þótt hátíðleiki öskudagsins hafi minnkað og jafnvel horfið hér á landi við siðbreytinguna hélt fólk áfram að gera sér glaðan dag síðustu dagana fyrir lönguföstu og hér hafa þróast ýmsir siðir kringum bolludag, sprengidag og öskudag. Athyglisvert er að bolludagur (sem væntanlega fékk ekki nafnið fyrr en snemma á 20. öld) og öskudagur hafa að nokkru leyti skipt um hlutverk. Lengi vel var mánudagurinn í 7. viku fyrir páska hefðbundinn frídagur barna í skólum og þá tíðkaðist víða um landið að „marséra” í grímubúningum og að slá köttinn úr tunnunni, seint á 19. öld. Þeir siðir hafa væntanlega borist frá Danmörku eða Noregi. Árið 1917 hafði frídagurinn verið færður yfir á öskudaginn víðast hvar á landinu og siðirnir fluttust með. Að „marséra” og slá köttinn úr tunnunni datt þó víðast hvar uppfyrir á 20. öld, en hélst þó við á Akureyri og hefur þaðan breiðst út á ný.
VF-Myndir: Siggi Jóns
Kötturinn var sleginn úr tunnunni á Öskudagshátíð í Reykjaneshöllinni.