Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

  • Kötlumót karlakóra í dag í Reykjanesbæ
    Það er allt tilbúið í Atlantic studios á Ásbrú fyrir stórtónleikana á Kötlumóti. VF-mynd/hilmarbragi.
  • Kötlumót karlakóra í dag í Reykjanesbæ
Laugardagur 17. október 2015 kl. 12:00

Kötlumót karlakóra í dag í Reykjanesbæ

- 600 karlar í fimmtán karlakórum syngja í bítlabænum á laugardag

„Við vonumst til að sjá sem flesta því hér er mjög skemmtilegur viðburður á ferð,“ sögðu þeir Þorvarður Guðmundsson og Guðjón Kristjánsson frá Karlakór Keflavíkur en í dag, laugardaginn 17. október, fer fram svokallað Kötlumót 2015 í Reykjanesbæ. Um sexhundruð karlar munu þenja raddirnar í bítlabænum þennan dag.

Katla er samband sunnlenskra karlakóra og nær sambandið austan frá Höfn í Hornafirði, vestur um Suðurland og höfuðborgarsvæðið, að Snæfellsnesi.

Í sambandinu eru nú 18 karlakórar og munu 15 þeirra taka þátt í Kötlumótinu sem haldið er á fimm ára fresti. Karlakór Keflavíkur heldur mótið að þessu sinni, dyggilega studdir af Söngsveitinni Víkingunum.

Mótið fer þannig fram að kl. 13:00 til 15:00 verða tónleikar einstakra kóra í Stapa og Bergi í Hljómahöll, í Ytri- Njarðvíkurkirkju og á Nesvöllum. Fjórir kórar syngja á hverjum stað í 20 mínútur hver. Tónleikagestir geta valið úr kórum til að hlusta á og gengið á milli staða á þá tónleika sem þeir kjósa.

Síðdegis hefjast svo stórtónleikar kl. 16:30 í Atlantic Studios á Ásbrú. Þá koma allir kórarnir saman í einum 600 manna risakór og syngja við undirleik stórhljómsveitar Tónlistarskóla Reykjanesbæjar sem sett er saman úr Lúðrasveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og Léttsveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar undir stjórn Karenar Sturlaugssonar. Tónleikunum stjórnar Guðlaugur Viktorsson fráfarandi stjórnandi Karlakórs Keflavíkur.



Dagskráin er sett saman úr tónlist sem tengist Suðurnesjum. Höfundar eru allir tengdir Suðurnesjum með einum eða öðrum hætti. Finna má tónlist frá hefðbundnum karlakórslögum til popplaga útsettum fyrir karlakóra. Þar verður einnig frumflutt lagið „Upp skal á kjöl klífa“ eftir Sigurð Sævarsson bæjarlistamann Reykjanesbæjar við texta úr Sturlungu. Aðrir höfundar spanna allt frá Sigvalda Kaldalóns til Rúnars Júlíussonar.

Einsöngvarar verða Jóhann Smári Sævarsson og Eyþór Ingi Gunnlaugsson.

Allt þetta er í boði fyrir sama aðgöngumiðann sem kostar 4.900 kr.

Kórarnir sem taka þátt í mótinu eru:

Karlakór Grafarvogs, Karlakór Hreppamanna, Karlakór Keflavíkur, Karlakór Kjalnesinga, Karlakór Kópavogs, Karlakór Reykjavíkur, Karlakór Selfoss, Karlakórinn Esja, Karlakórinn Fóstbræður, Karlakórinn Jökull, Karlakórinn Stefnir, Karlakórinn Þrestir, Raddbandafélag Reykjavíkur, Söngsveitin Víkingarnir og gestakór af Norðurlandi verður Karlakór Eyjafjarðar.


 

Hér er viðtal við Þorvarð og Guðjón Kristjánsson þar sem þeir ræða Kötlumótið í Sjónvarpi Víkurfrétta.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024