Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Kótilettur og gönguferð á jóladag
Haukur Helgi segir jólin best heima.
Miðvikudagur 23. desember 2015 kl. 20:00

Kótilettur og gönguferð á jóladag

Jólin mín: Haukur Helgi Pálsson

Haukur Helgi Pálsson hefur verið öflugur með Njarðvíkingum í Domino’s deild karla í vetur. Haukur hefur verið mikið erlendis um jólin enda verið atvinnumaður í körfubolta síðustu sex ár.  Honum þykir þó langbest að vera heima á Íslandi. Hann ætlar að snæða kótilettur í fyrsta sinn á jólunum þetta árið og bregða sér í árlegan göngutúr með fjölskyldunni á jóladag.

Jólabíómyndin sem kemur þér í skapið?
Ég hef einhvernveginn alltaf horft á Lord Of The Rings myndirnar um jólin en hef gaman af Home Alone fyrstu myndinni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sendir þú jólakort eða hefur Facebook tekið yfir?
Ég er svo lélegur í að senda kort eða setja inn kveðjur að ég reyni bara að hringja eða hitta það fólk um jólin sem er mér næst og geri það þannig frekar en að senda jólakort.

Ertu vanafastur um jólin, eitthvað sem þú gerir alltaf um hátíðarnar?
Það er erfitt fyrir mig að vera vanafastur síðustu sex ár þar sem ég hef alltaf verið erlendis út af körfunni. Þannig engar venjur svo sem en þegar maður bjó á Íslandi þá var það eina sem maður bað um að það væri alltaf það sama í matinn og opna pakkana á svipuðum tímum. Spila síðan vanalega með fjölskyldunni.

Eftirminnilegasta jólagjöf sem þú hefur fengið?
Eftirminnilegasta jólagjöfin ætli það hafi ekki verið „Action Hero“ bílinn sem skaut eldflaugum úr ljósunum, það var aðal málið á þeim tíma þegar ég var svona 6-7 ára, fannst hann geðveikur!

Hvað er í matinn á aðfangadag?
Þegar ég bjó heima þá var vanalega humar í forrétt og önd í aðalrétt. Núna er ég að fara í einhverja nýjung, það verða kótilettur þessi jól, hafði mínar efasemdir með það en ekki búinn að heyra neitt nema gott um þessar sérstöku kótilettur, þannig að ég hlakka til að prufa það.

Hvernær eru jólin komin fyrir þér?
Það var nú alltaf þegar maður var kominn í jólafrí í skólanum þá voru jólin virkilega kominn. Þá var maður bara úti að leika sér í snjónum, búa til virki og svona. Upp á síðkastið er maður minna í því, því miður. Núna er það bara þegar jólaskreytingarnar eru komnar upp og jólatréð er komið upp þannig kannski um 20 des.

Hefur þú verið eða gætir þú hugsað þér að vera erlendis um jólin?
Hef verið erlendis þannig að þetta er auðvelt svar fyrir mig, en jólin eru best heima!

Hvernig verð þú jóladegi?
Reyni að draga fjölskylduna í spil og rólegheit en ég hef mjög gaman að því að spila. Annars er bara að vera saman því mér finnst leiðinlegt að vera stússast mikið á jóladegi. Vil helst bara vera heima hjá mér og slaka á. Það er reyndar ein hefð hjá fjölskyldunni en það er jóladagsgangan. Þá förum við um morguninn og tökum góðan göngutúr frænkur og frændur og afi. Veit ekkert hvert við förum í göngu í ár en það verður eitthvað spennandi.