Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

„Kostur að þurfa ekki að skafa bílinn á köldum vetrarmorgnum“
Eydna ásamt dætrum sínum, Maríu og Nínu.
Laugardagur 23. desember 2017 kl. 07:00

„Kostur að þurfa ekki að skafa bílinn á köldum vetrarmorgnum“

- Eydna flutti til Spánar og lét drauminn rætast

Marga dreymir um það að búa þar sem sólin skín flesta daga ársins, þurfa ekki að skafa bílinn á köldum vetrarmorgnum og hjá flestum okkar eru þetta dagdraumar. Grindvíkingurinn Eydna Fossádal flutti til Spánar fyrr á þessu ári ásamt Viktori manninum sínum og Maríu dóttur þeirra en þau höfðu lengi talað um það að flytja erlendis, eða flytja þangað þar sem veðurfarið væri betra og hlýrra en á Íslandi og létu drauminn rætast í ár.

Eydna og Viktor höfðu horft lengi til Danmerkur en ákváðu síðan að fara á heitara svæði, einhvert hlýrra en í danaveldi. „Við töluðum líka um það hvað það væri gott fyrir Maríu dóttur okkar að kynnast öðrum samfélögum og læra ný tungumál, það væri því heppilegast að fara áður en hún byrjaði í skóla.“
Þau ákváðu því einn daginn að gera alvöru úr því að flytja, fluttu til Spánar og þá var ekki aftur snúið. Viktor er á sjó og er í fimm vikur heima og fimm vikur að heiman.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

María í skólabúningnum sínum.

Skrúðgöngur og jólamarkaðir á Spáni
Þessa dagana er Eydna að njóta þess að vera til, hún segir að hún hafi aldrei haft jafn mikinn tíma fyrir sig og fjölskyldu sína. Hún er komin með vinnu hjá fasteignasölunni Sólareignir og hefur verið að koma fjölskyldunni hægt og bítandi fyrir á Spáni og hugsa um Maríu. Hún er einnig byrjuð að læra spænsku og segir að það sé alltaf nóg að gera. Dagurinn hjá þeim mæðgum, þegar Viktor er á sjó, hefst snemma en María byrjar í skólanum korter yfir níu á morgnana og þá fer Eydna í spænskukennslu. „Eftir kennslu finnst mér notalegt að setjast niður niðri í bæ og fá mér eitthvað að borða í góða veðrinu. Stundum kíkjum við á ströndina eða almenningsgarða en svo er ég líka að sinna því sem þarf að sinna í daglegu lífi. Svo hef ég líka kynnst heimafólki sem hefur hjálpað mér að kynnast spænskum jólahefðum, eins t.d. að fara á jólamarkaði og Carnival skrúðgöngu sem María litla elskaði.“

Kostur að þurfa ekki að skafa bílinn á morgnana
Andrúmsloftið er töluvert afslappaðra á Spáni heldur en á Íslandi, en þegar Eydna er í útréttingum eða pappírsvinnu þarf hún svolítið að anda með nefinu. Á Spáni eru hlutirnir bara framkvæmdir á morgun eða jafnvel í næstu viku og algengt að heyra t.d. í bönkum eða á opinberum skrifstofum: „Já, bara á morgun“.
„Fólk er rólegt hér, sem er auðvitað kostur. Hér er mikill munur á líferni, allt ódýrara, bæði matur og föt. Við höfum auðvitað ekki langa reynslu hér en höfum mikið talað við Íslendinga sem hafa búið hér í lengri eða skemmri tíma og nánast undantekningarlaust eru þeir mjög ánægðir að búa hér og hrósa heilbrigðiskerfinu.“ María væri enn í leikskóla ef þau byggju á  Íslandi en hún er byrjuð í skóla á Spáni. „Henni gengur mjög vel í skólanum og hefur eignast góða vini. Það var mjög erfitt fyrir hana að byrja á fyrsta degi, en hún hefur ekki kvartað yfir því að fara í skólann. Hún er í einkaskóla og þar fer kennsla fram á ensku og spænsku. Allir eru í skólabúningum sem mér finnst vera kostur því það eru allir eins. Það er alltaf bjart þegar skólinn byrjar og sólin skín á okkur 320 daga á ári. Útisvæðin við skólann eru dásamleg en þar er staður þar sem foreldrar og börn geta sest niður, slakað á og fengið sér eitthvað gott að borða eftir langan skóladag. Margir nýta sér þennan skemmtilega valkost til að styrkja tengsl barnanna og foreldrarnir spjalla einnig saman þarna sem er mjög gott.“ Eydna nefnir það einnig að það sé mikill kostur að þurfa aldrei að skafa af bílnum á köldum vetrarmorgnum.

Viktor og Eydna.

Mæðgur hittast í Færeyjum
Í ár verður Eydna ekki á Íslandi um jólin, heldur í Færeyjum en hún kemur þaðan, Viktor verður á sjó og ætlar eldri dóttir Eydnu, Nína, að hitta þær mæðgur í Færeyjum um jólin. „Ég hlakka mikið til að hitta Nínu og alla hina í fjölskyldunni minni, ég er mikið jólabarn og elska allt sem fylgir þeim. Ég verð eiginlega bara barn aftur og hlakka mikið til að opna gjafirnar og jólakortin á aðfangadag. Ég held fast í jólahefðir því það eru þær sem gera jólin svo notaleg. Ég er alltaf með Ris a la Mande með möndlu í eftirrétt á aðfangadag en við borðum grautinn ekki fyrr en allar gjafirnar eru opnaðar og þá setjast allir niður og bíða spennir eftir því hver fái möndluna og pakkann. Þetta er alltaf skemmtilegur endir á yndislegu kvöldi.“

Þegar Eydna er spurð hvort þau stefni á það að búa lengi á Spáni eða hvort þau komi einhvern tímann aftur til Íslands segir hún að tíminn verði að leiða það í ljós, þau hafi ákveðið að gefa þessu tækifæri og verði síðan bara að sjá til. „Okkur þykir vænt um Ísland þannig það er alveg líklegt að við komum einhvern tímann aftur en eins og er líður okkur mjög vel hér á Spáni.“