Kosmos & Kaos stækkar húsnæði sitt í Keflavík
Vefhönnunarstofan Kosmos & Kaos, fagnaði í síðustu viku stækkun á húsnæði sínu að Hafnargötu 35 í Reykjanesbæ í gærkvöldi, en fyrirtækið starfrækir einnig útibú í Reykjavík.
Kosmos & Kaos fagnar einnig 5 ára afmæli á árinu en fyrirtækið var stofnað í apríl 2010. Fyrirtækið er í eigu Keflvíkingsins Guðmundar Bjarna Sigurðssonar og Kristjáns Gunnarssonar, en þeir seldu 35% hlut í sumar til bandaríska hönnunarfyrirtækisins Ueno llc. sem er með starfsemi í San Francisco og New York. Starfsmenn eru 15 í dag og hafa umsvif aukist mjög undanfarið ár.
Fyrirtækið starfrækir útibú í Reykjavík, nánar tiltekið að Hólmaslóð 4 en miklar endurbætur hafa verið á því húsnæði, sem er um 200 fermetrar.
Fjölmargir viðskiptavinir heimsóttu afmælisbarnið í stækkuðu húsnæði í Keflavík. Ný stækkuð skrifstofan er auðvitað opin eins og tíðkast víða þar sem hugmyndirnar þurfa að fljóta Þá er að finna „hugmynda“-veggi á skrifstofunni, tvo með grænum gróðri og einn með tæplega 1300 timburkubbum. JeES arkitektar hönnuðu breytingarnar á húsnæðinu.
VF smellti nokkrum myndum. Þær eru hér:
Allir í stuði í K&K partýi.
Skvísur í stuði, f.v.: Þóranna, Eydís, Dagný og Ásta.
Hjónin Einar Ásbjörn og Elfa Hrund kíktu við og brosa hér í linsuna sem og Guðmundur, Inga Birna og Hrafn Árnason.
Örvar Sigurðsson (til hægri) nýráðinn hönnuður og við hlið hans er Óli Mýrdal „Ozzo“ ljósmyndari.
Kristján, Júlíus Guðmundsson hjá Dacoda og Eysteinn Eyjólfs á spjalli.