Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Mannlíf

Kórar Íslands þjappaði hópnum saman
Laugardagur 9. desember 2017 kl. 06:00

Kórar Íslands þjappaði hópnum saman

- Eftir fyrsta þátt var farið í keppnisgírinn

Atli Geir Júlíusson og Gígja Eyjólfsdóttir eru saman í ungmennakórnum Vox Felix, þau eru gift og eiga tvö börn saman, þau Patrek og Hildigunni. Vox Felix komst í úrslit í þættinum Kórar Íslands og að sögn Gígju og Atla var keppnisskapið til staðar og fór kórinn „all in“, þrátt fyrir að hafa bara skráð sig í  keppnina í gríni til að byrja með. Árlegir jólatónleikar kórsins verða 13. og 14. desember nk. og mun hluti ágóða tónleikanna renna til samtakanna Lítil hjörtu. Við hittum þau Atla og Gígju í Keflavíkurkirkju fyrir æfingu Vox Felix og spurðum þau um kórinn, samstarfið og jólin.

Af hverju eruð þið í Vox Felix?

Public deli
Public deli

Atli: „Því okkur finnst gaman að syngja og að vera í góðum félagsskap.“

Gígja: „Sumir fara í jóga eða líkamsrækt og þetta er svolítið eins og það. Ég er búin að syngja í langan tíma og finnst fátt annað eins skemmtilegt og það, svo hefur Atli bara smitast. Maður kemur stundum heim úr vinnunni, gefur krökkunum að borða og gerir þau tilbúin í háttinn og nennir varla að fara á æfingu því maður er svo þreyttur eftir daginn en kemur svo bara fullur af orku til baka eftir kóræfingu.“

Gígja hefur verið í kórnum frá 2013 og er ein af elstu meðlimum kórsins en þó ekki aldurslega séð og Atli Geir gekk til liðs við Vox Felix fyrir einu og hálfu ári síðan.

Eru fleiri pör en þið í Vox Felix?

Atli: „Það eru tvö pör í viðbót en svo eru líka til Vox Felix börn.“

Gígja: „Við vorum einmitt að ræða það á æfingu um daginn hvað það væru mörg Vox Felix börn sem hefðu orðið til, nú er eitt í maganum sem syngur á þessum tónleikum og það er fimmta eða sjötta barnið sem syngur með á tónleikum. Það er svolítið gaman af því hvað mörg börn hafa fæðst hjá okkur í kórnum. Við vorum einu sinni á æfingu á sunnudegi í hádeginu að syngja lagið „Líf“ og þá fékk Arnór, kórstjórinn okkar, símtal um að hann væri orðinn afi. Þannig það er líka búið að koma afabarn, þetta er mjög frjósamur kór.“

Þið komust í úrslit Kórar Íslands, hvernig upplifun var það að taka þátt í þeirri keppni?

Atli: „Það var rosalega gaman en mjög skrýtið að vera uppi á sviði í sviðsljósinu. Þegar maður er í svona hóp þá stressast allir saman en svo þegar þú ert komin upp á svið þá gleymir þú stressinu og ferð bara að syngja, Gígja er nú aðeins vanari þessu heldur en ég en hún hefur meðal annars verið í beinni á RÚV í Söngvakeppni framhaldsskólanna.“

Gígja: „Það er náttúrulega allt annað að vera ein í beinni útsendingu og að vera í hóp, maður finnur ekki eins mikið fyrir því og pressan er ekki bara á mann sjálfan. Það var ótrúlega skemmtilegt að vera í Kórar Íslands og þjappaði okkur hópnum svo mikið saman. Vox Felix hefur ekki alltaf verið þrjátíu manna kór og við höfum oft átt erfitt með að fá fólk. Við skráðum okkur í þessa keppni því okkur fannst þetta pínu fyndið og vissum í raun og veru ekkert hvað þátturinn gekk út á. Svo strax eftir fyrsta þáttinn þá var bara skellt í keppnisgírinn og þegar við vissum að það væru fjórar milljónir í verðlaun þá efldist keppnisskapið. Bryndís dómari sagði einmitt við okkur að við værum mætt til að vinna og að við værum komin til að taka þetta. Stemningin í hópnum var einmitt þannig, aukaæfingar og þetta var allt öðruvísi reynsla heldur en við lögðum upp með í upphafi og við erum öll sammála um það að þetta var ótrúlega skemmtilegt.“

Rafmagnað úrslitakvöld
Stemningin á lokakvöldi Kórar Íslands var rafmögnuð að sögn Gígju og Atla, en þau töluðu ekki við hina kórana og segja það hálf fyndið hversu mikil spenna var í loftinu. Gígja er að eigin sögn mikil keppnismanneskja og átti alls ekki von á því að detta í svona mikinn keppnisgír á úrslitakvöldinu sjálfu.

Hvernig er að syngja með hvoru öðru?

Atli: „Það er ótrúlega gaman, ég kann ekkert að syngja þannig lagað og er ekki eins og Gígja sem hefur sungið frá því hún fæddist og getur pikkað upp tóna hérna á æfingum hægri vinstri. Ég þarf að hafa aðeins meira fyrir þessu en það er þá líka gaman að geta sungið saman heima og æft sig, sem við gerum og við hlustum á gamlar æfingar á leiðinni í kirkjuna á mánudögum. Ég væri örugglega ekki í kórnum ef Gígja væri ekki í honum, svo er aldrei að vita nema að maður fari einhvern tímann í karlakór en ekki alveg strax samt.“

Gígja: „Mér finnst þetta mjög skemmtilegt, ég held það sé mikilvægt fyrir pör að hafa eitthvað sameiginlegt áhugamál og þegar við vorum að kynnast var Atli ekki í tónlist eða neitt slíkt. En þegar hann kynntist mér þá var ég á fullu í músík og þá fékk hann meiri áhuga fyrir þessu en var kannski meira að syngja í sturtunni og svona. En hann var svo áhugasamur og Erla prestur sagði meira að segja einu sinni þegar hún var að skíra hjá okkur að henni finnist alltaf svo gaman að sjá Atla í salnum þegar ég er að syngja en hún hafi samt haldið að honum langaði svo geðveikt að vera með. Ég sagði við Arnór að ég vissi ekki alveg hvort hann kynni að syngja en að honum langaði svo mikið að vera með og ég held að Arnór sé bara ánægður með hann og hann leynir á sér. Það er allavega ekki búið að reka hann ennþá,“ segir hún og hlær. „Nei, hann er mjög góður og getur þetta vel.“

Þið eigið tvö börn, hvernig gengur að tvinna saman fjölskyldulífið og kórinn?

Atli: „Almennt gengur það vel en í eðlilegu árferði æfum við bara einu sinni í viku. Á meðan við vorum í Kórum Íslands þá var mikið að gera hjá okkur og eins núna fyrir jólatónleikana, þá er gott að eiga góða barnapíu og góðar ömmur og afa heima sem eru tilbúin að hlaupa í skarðið.“

Gígja: „Við eigum mjög góða að. Við búum í Grindavík, keyrum í sitthvora áttina í vinnuna og svo förum við til Grindavíkur til að sækja börnin og koma þeim í pössun þannig að þetta er alveg pínu púsl en við erum alveg til í að gera þetta eins og þetta er í dag því okkur finnst þetta svo gaman. Maður færir alveg fórnir til að taka þátt í þessu en það er alveg þess virði. Síðustu tvö ár hefur verið uppselt hjá okkur á jólatónleikana og við ákváðum í ár að hafa aukatónleika á bakvið eyrað því í fyrra var strax orðið uppselt hjá okkur. Þannig að núna er uppselt á fyrri tónleikana en það eru örfáir miðar eftir á tónleikana sem verða 14. desember.

Breytt skipulag
Vanalega æfir Vox Felix meira fyrir jólatónleika en skipulagið breyttist örlítið þegar kórinn keppti í Kórar Íslands. Þau hafa þó komið sér upp góðum banka af jólalögum sem þau kunna sem hjálpar heilmikið. Kórinn er hins vegar duglegur að syngja á hinum ýmsu stöðum og viðburðum á aðventunni og segir Gígja að þau noti þá viðburði líka sem æfingar, það sé ekki síður æfing að koma fram og prófa efnið á ýmsum viðburðum.

Hver eru uppáhalds jólalögin ykkar?

Atli: „Komdu um jólin“ er mitt uppáhalds en „Jólin eru að koma“ er uppáhalds lagið mitt sem við syngjum með Vox Felix og líka Frostrósarlagið, það er alltaf flott.

Gígja: Ég á mjög erfitt með að finna mitt uppáhalds jólalag, „Svona eru jólin“ var alltaf mitt uppáhald en „Af álfum“ er uppáhalds lagið mitt sem við syngjum með Vox Felix. En öll jólalögin eru mjög skemmtileg, ég er mjög mikið jólabarn og við erum löngu byrjuð að hlusta á jólalög.

Þið styrkið gott málefni af ágóða tónleikanna, segið mér aðeins frá því.

Gígja: Við byrjuðum á því í fyrra en við erum samstarfsverkefni kirknanna á Suðurnesjum og viljum láta gott af okkur leiða í kringum þetta starf. Okkur langaði að láta hluta af ágóða tónleikanna renna í gott málefni og þá kom upp sú hugmynd að styrkja Lítil hjörtu en það eru samtök sem eru héðan af Suðurnesjunum og styrkja í okkar sóknum. Lítil hjörtu er góðgerðafélag sem var stofnað af Styrmi Barkarsyni og var fyrst gert til þess að hjálpa jólasveininum svo öll börn fengju í skóinn á aðventunni. Ég held að slagorðið sé að ekkert barn vakni með tóman skó á jólunum. Svo hefur þessi peningur líka nýst í jólagjafir og þannig.

Vox Felix stefnir að því að fara í kórferðalag á næstu árum en þau langar að fara erlendis til þess að hitta aðra kóra sem eru að gera svipaða hluti. Eftir jólatónleikana taka við æfingar fyrir vortónleika kórsins og fleira skemmtilegt.