Kóramót barnakóra á Suðurnesjum um næstu helgi
Barnakórastarf hefur verið í mikilli uppsveiflu á Suðurnesjum nú að undanförnu. Af því tilefni hafa kórstjórar tekið höndum saman og standa fyrir kóramóti sem haldið verður í Gerðaskóla í Garði 19. og 20. apríl.
Þátttakendur í mótinu eru rúmlega 100 syngjandi glaðir krakkar úr Barnakór Garðs, Barnakór Holtaskóla, Barnakór Heiðarskóla, Barnakór Keflavíkurkirkju og Barnakór KFUM og K í Reykjanesbæ.
Gerðaskóli og Íþróttamiðstöð Garðs hafa boðið uppá húsnæðisaðstöðu til að halda mótið og Menningarráð Suðurnesja hefur styrkt verkefnið fjárhagslega. Auk sundferða, leikja og skemmtanna, mun söngurinn að sjálfsögðu spila stórt hlutverk á mótinu. Hápunktur mótsins verða tónleikar í Íþróttamiðstöðinni Garði, sunnudaginn 20. apríl kl. 14 og eru allir velkomnir.
Hver kór syngur út á fyrir sig en einnig syngja þau saman í rúmlega 100 manna barnakór söngva sem þau hafa lært á mótinu. Þeir sem að mótinu standa vona að það verði börnunum hvatning jafnt sem skemmtun að vinna með öðrum kórum. Einnig vilja þeir vekja athygli á barnamenningu á svæðinu og því uppeldis – og tónlistarstarfi sem fram fer í kórunum.