Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Konur sem elska að vera á hestbaki
Gunnhildur Erla ásamt Feldísi frá Ásbrú.
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
föstudaginn 28. júní 2019 kl. 06:13

Konur sem elska að vera á hestbaki

Kvennareið hestamannafélagsins Mána hefur farið fram í áratugi og ávallt er blásið til hópreiðar kvöldið fyrir uppstigningardag. Þetta eru mjög vinsælar ferðir og fjörugar með fagurskreyttum konum og hestum. Sérvalin undirbúningsnefnd Mánakvenna sér um dagskrána. 

Á þessu ári endaði kvennareið Mána í Fjörukoti þeirra Gunnhildar Gunnarsdóttur og Guðmundar Sigurbergssonar en hjónin hafa komið sér upp þessu stórskemmtilega sumarhúsi rétt fyrir utan Sandgerði, í áttina að Hvalsnesi. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Víkurfréttir mæltu sér mót við eina úr undirbúningsnefnd, Gunnhildi Erlu Vilbergsdóttur, og fékk innsýn í líf hestakonunnar en hún fór fyrst á bak sem lítið barn hjá pabba sínum, Vilbergi Skúlasyni eða Villa pulsu eins og hún kallaði hann sjálf.

Hópreið kvenna á hverju ári
Hesthúsabyggðin að Mánagrund iðaði af lífi þegar konur mættu í árlega kvennareið, viðburð sem laðar til sín marga kvenknapa. Víkurfréttir áttu stefnumót rétt fyrir kvennareið með Gunnhildi Erlu í hesthúsi fjölskyldu hennar. 

„Við ætlum að fara í klukkustundar reiðtúr frá Mánagrund yfir móann og enda í Fjörukoti hjá Gunnhildi sem er gestgjafinn okkar í kvöld. Þetta er afslöppuð reið og við tökum tvö þrjú stopp á leiðinni. Gunnhildur er einnig í undirbúningsnefnd, ásamt mér, Höllu Sig og Guddu Vilhjálms. Þema ferðarinnar er gull og silfur þetta árið en við erum alltaf með nýtt þema á hverju ári. Í fyrra var það Flower Power. Það er rosa gaman að sjá hvernig sumar konur skreyta sig sjálfar og hestinn sinn. Reiðtúrinn miðast alltaf við umhverfi þar sem við getum ferðast um á hesti án þess að bílaumferð trufli of mikið. Móinn er yfirleitt léttasta leiðin en stundum þarf að fara yfir vegi þar sem bílar bruna framhjá okkur á mikilli ferð en við reynum að skipuleggja reiðtúrinn utan vegar. Það eru fjörutíu konur skráðar í ferðina okkar í kvöld, allt vanar hestakonur og í ár verður sú elsta í hópnum 90 ára, spræk og flott hestakona sem býr í Reykjavík en er móðir einnar í hestamannafélaginu Mána,“ segir Gunnhildur Erla sem fór fyrst á bak með pabba sínum sem lítið barn.

Alin upp á Mánagrund
Alveg frá byrjun hefur Gunnhildur Erla haft gaman af hestamennsku. „Ég er alin upp við hestamennsku, fæðist inn í hestafjölskyldu. Ég var hestasjúkust af okkur systkinunum en ég á tvo bræður, yngri og eldri. Pabbi þurfti oft að segjast vera að fara eitthvað annað en í hesthúsið, þegar ég spurði hann hvert hann væri að fara en þá var hann kannski að fara að þjálfa hest og vildi vera barnlaus. Pabbi minn er svona náttúrubarn í hestamennsku. Ég fékk hestasýkina fyrir alvöru eftir að ég fermdist en fyrstu reiðbuxurnar mínar fékk ég í fermingargjöf. Ég er eiginlega alin upp á Mánagrund. Mamma hefur alltaf stutt okkur öll sem erum í hestamennskunni og hefur gaman af þessu en pabbi er hesthaus. Mamma fer á bak en ekki mikið. Ég er ein eftir í hestamennskunni hér suðurfrá því foreldrar mínir eru fluttir upp í sveit. Pabbi og mamma keyptu sér jörð fyrir tuttugu árum í Ásahreppi þar sem þau hafa nú byggt sér heimili og hesthús og eru alsæl. Þar eru þau einnig með fjárhús og hænur, hund og kött. Mamma mín Gulla er pæja í sveitinni, hún er komin í kirkjukórinn og pabbi kynnist öllum þar sem hann kemur,“ segir Gunnhildur brosandi en pæjan sem hún nefnir, móðir hennar, heitir Guðlaug Skúladóttir. Gunnhildur segir að þau systkinin hafi haft mismikinn áhuga á hestamennsku en hún og Skúli yngri bróðir hennar séu hvað hrifnust af þessari íþrótt. 


Þemað í ár var gull og silfur.

Hestamennska eins og jógaiðkun
Að koma út á Mánagrund eftir vinnu finnst Gunnhildi æðislegt. „Ég hef sagt að hestar séu jógað mitt því ég fer mjög mikið ein á bak og þá er ég í núvitund, hér og nú. Ég keppi ekki lengur í hestamennsku en mér finnst æðislegt að klára vinnudaginn hér úti á Mánagrund, í náttúrunni alein á hestbaki. Mér finnst æðislegt að fara í skítagallann og bóndaskóna en það þarf að moka skít og sinna hestunum sem mér finnst ofboðslega gefandi. Náttúran tosar í mig og gefur mér svo mikinn kraft. Ég get ekki beðið eftir að koma í hesthúsið eftir vinnu og endurnýja orkuna mína hér. Ég kem hingað í hesthúsið hans pabba eins oft og ég get en hann á ennþá húsið. Ég á tvo fótboltastráka sem eru tíu og þrettán ára. Sá yngri er svolítill kúreki og er til að fara á hestbak með mömmu sinni,“ segir Gunnhildur kímin en nú þarf hún að byrja að leggja reiðtygin á Feldísi, uppáhaldshestinn sinn, því kvennareiðin hefst innan tíðar. Feldís er tíu vetra verðlaunahryssa, fædd og ræktuð frá föður Gunnhildar Erlu, að Ásbrú í Ásahreppi.

Yndisleg kvennareið
Blaðakona Víkurfrétta fylgdi kvennareið Mána eftir í bifreið sinni og elti hópinn heim í Fjörukotið hennar Gunnhildar Gunnarsdóttur. Þegar þangað var komið slepptu konurnar hestunum innan girðingar, sem fóru á beit um leið og þeir voru komnir í ilmandi safaríkt grasið.

Hvað segir Gunnhildur um þennan skemmtilega viðburð Mánakvenna?
„Þetta gerum við á hverju ári, bara yndislegt. Þetta árið bauð ég konunum í kvennareið hingað heim í Fjörukotið mitt. Ég keypti þetta hús fyrir mörgum árum en þá var það í niðurníðslu. Ég kom heim og tilkynnti manninum mínum og dætrum okkar þremur, að ég væri búin að kaupa þennan A bústað niður í fjöru því hérna langaði mig að slaka á, hér í fjörunni. Maðurinn minn sem var ekkert of hrifinn af þessari skyndiákvörðun minni fékk svo víðáttubrjálæði og hefur byggt upp allt hérna. Hér líður fjölskyldunni vel og hingað langaði mig að bjóða konunum í dag til að eiga góða stund. Hestarnir fóru áðan inn í gerðið á beit og á meðan ætlum við konurnar líka að fá okkur að borða,“ segir Gunnhildur og skælbrosir, enda ekki hægt annað á þessum fallega stað sem hún og maður hennar Guðmundur Sigurbergsson hafa skapað í sameiningu.


Gudda, Gunnhildur, Halla og Gunnhildur Erla sáu um skipulagningu Kvennareiðar í ár.

Vildi ekki láta skjóta hestinn
Gunnhildur var á hliðarlínunni í hestamennsku til að byrja með eða alveg þangað til að henni bauðst að bjarga lífi hests.

„Ég byrjaði í hestamennsku út frá yngstu dóttur minni en hún hefur alltaf haft áhuga á hestum. Ég var eiginlega tilneydd til að byrja því þeir komu með hryssu til mín sem átti að fara að skjóta en ég aumkast alltaf yfir dýrum og það kom ekki til greina að þeir færu með hana til að láta skjóta hana, svo ég tók hana að mér. Þeir redduðu plássi fyrir mig í hesthúsi hjá öðrum, þannig að ég var tilneydd að fara á bak og gera allt sem gera þurfti en ég var skíthrædd, alveg rosalega hrædd. Ég þorði ekki að koma nálægt þessu, ég þorði ekki að fara inn í bás eða neitt. Ég var svo skíthrædd. Þeir þurftu í byrjun að gera allt þetta fyrir mig en ég fór á bak og hreyfði merina. Í dag geri ég allt þetta sjálf. Ég er sjálf komin með hesthús og við eigum fjórtán hross eða fimmtán því það fæddist folald í dag en ég á eina meri sem er alltaf að gefa okkur hross,“ segir Gunnhildur sem segir eiginmanninn ekki enn hafa smitast af hestamennskunni.

Barnabörn eru komin í hestana
Það er ákveðinn lífsstíll að vera í hestamennsku og Gunnhildur á barnabörn sem eru farin að hafa mikinn áhuga á hestum. 
„Maðurinn minn kemur ekki nálægt þessu en hann kíkir í kaffi annað slagið hingað út í hesthús. Það erum við Sunna, yngsta dóttir okkar sem erum aðallega í þessu saman. Tvö af barnabörnum okkar hafa mikinn áhuga á hestum og ég vona að það endist, við krossum puttana,“ segir Gunnhildur skælbrosandi um leið og hún drífur sig inn í veisluna með konunum, sem fram fer í risastórri uppgerðri olíutunnu á túninu við Fjörukot, rými sem eiginmaðurinn er búinn að breyta í skemmtilegan sal með sófum og borðum.


Álfadrottningar voru með í ferðinni, þær Eygló og Úlfhildur.

Vinkonur sem tóku þemað í botn
Þær voru klæddar eins og álfadrottningar og hestarnir þeirra voru einnig skreyttir með fallegu höfuðskrauti. Okkur lék forvitni á að vita hvers vegna þær völdu þennan búning í tilefni dagsins. „Við vildum vera fallegar konur á góðri stundu og það er bara svo gaman að búa til svona fallega búninga og fara á fallegum fák út í náttúruna,“ segir Úlfhildur.

Hvers vegna hestamennska?
„Ég hef verið í hestum frá því að ég var barn. Þetta er yndisleg skepna til að vera með úti í náttúrunni,“ segir Eygló og Úlfhildur samsinnir því.

„Ég hef einnig verið í hestamennsku frá því að ég var lítið barn. Þegar ég fer á bak þá er ég drottning um stund, er ein með sjálfri mér og hestinum. Ég finn frelsið og allar áhyggjur eru á bak og burt,“ segir Úlfhildur.

Eru konur virkar í hestamannafélagi Mána? 
„Já, ég myndi segja það, í vetur var til dæmis hópur með slaufureið í reiðhöllinni okkar þar sem við vorum að vinna með tölt í hóp,“ segir Eygló.

„Hestamennska er mjög gott fjölskyldusport sem sameinar fjölskylduna, þar sem allir geta tekið þátt, allir geta mokað, allir geta verið með þegar verið er að kemba og hugsa um hestinn. Allir hafa gaman með hestunum. Kvennareið er skemmtilegt tækifæri fyrir okkur Mánakonur til að hittast. Að koma í Fjörukot er dásamlegt en Gunnhildur gestgjafi teymdi okkur hingað frá Mánagrund og stóð sig vel,“ segir Úlfhildur að lokum.


Kristín Pálmadóttir er 90 ára hestakona. Hún tók þátt í kvennareið Mána ásamt dóttur sinni, Jóhönnu Harðardóttur, og dætrum hennar sem einnig eru hestakonur eins og amman spræka.