Konur njóta sín í Curves
Líkamsrækt er orðinn daglegur þáttur í lífi margra einstaklinga. Í Reykjanesbæ er starfrækt ein líkamsræktarstöð sem sérstaklega er ætluð konum og er hún hluti af mjög vinsælli keðju í Bandaríkjunum og víðar, sem kallast Curves og útleggst sem línur á íslensku. Upphafsmaður Curves er bandarískur læknir að nafni Gary Heavin.
Það er algengt að heyra konur kvarta yfir því að þær hafi einfaldlega ekki tíma til að stunda líkamsrækt. Curves stílar inn á nútímakonuna sem hefur takmarkaðan tíma til líkamsþjálfunar en þar getur hún komið og fengið fullkomna þjálfun sem inniheldur styrkingu og fitubrennslu á einungis 30 mínútum. Alhliða líkamsrækt verður að ná til fimm þátta: upphitunar, þolæfinga, styrktaræfinga, hægra æfinga og teygjuæfinga og við það miðast æfingakerfi Curves.
Mjög einfalt æfingakerfi
Í Curves er mikið lagt upp úr því að sinna vel hverri konu sem stundar þar líkamsrækt. Konan hefur því alltaf aðgang að leiðbeinanda Curves sem fylgist vel með að æfingarnar séu rétt gerðar hjá henni ásamt því að veita henni stuðning og hvatningu.
Við hittum að máli leiðbeinendur Curves í Grófinni 8 í Keflavík en þær heita Elínbjört Halldórsdóttir, sem jafnframt er framkvæmastýra og Kristín Sæmundsdóttir og spurðum þær hvers konar stöð Curves væri.
Hér byggist líkamsræktin á stöðvaþjálfun en það eru styrktartæki og fjölbreyttir hvíldarpallar. Tækin okkar eru með vökvaknúnum viðnámsbúnaði sem gera mögulegt að æfa samtímis þol og styrktaræfingar. Í salnum hljómar skemmtileg tónlist á meðan æft er.
Markmið okkar sem leiðbeinum hér er að mynda persónuleg tengsl og hvetja iðkendur. Þær ákveða sér markmið í upphafi og saman stefnum við að persónulegu markmiði þeirra. Við bendum þeim á að vera með raunhæf markmið og vinna í sjálfri sér andlega um leið og þær styrkja líkamann. Við leggjum mikla áherslu á að hafa heimilislegt andrúmsloft hér á Curves og að konurnar finni jákvætt viðmót um leið og þær stíga hér inn. Konur eru á öllum aldri sem stunda líkamsrækt í Curves en hópurinn samanstendur núna af aldrinum 16 til 77 ára. Þátttakendur eru fjölmargir og af öllum stærðum og gerðum.
Leikandi létt sjálfstyrkingarnámskeið
Skvísukvöld var haldið hér um daginn við mikla lukku þátttakenda Curves og er ætlunin að hafa fleiri skemmtikvöld reglulega hér eftir. Marta í Púlsinum kom til okkar á skvísukvöldinu með hláturjóga sem hitti beint í mark og varð kveikjan að frekara samstarfi við hana. Marta hefur ákveðið að bjóða upp á sjálfstyrkingarnámskeið fyrir konur sem nefnist Leikandi létt en það hefst þriðjudagskvöldið 28.október og er það opið öllum konum hvort sem þær æfa í Curves eða ekki. Á námskeiðinu sem fram fer í húsnæði Curves verður lögð áhersla á gleðina og mikilvægi þess að styrkja okkur andlega. Við ætlum að dansa, jógast, hlæja og rækta það jákvæða og sterka í fari okkar undir dyggri leiðsögn Mörtu. Sjá meira um þetta á heimasíðunni pulsinn.is.
Það er hægt að byrja hvenær sem er að rækta líkama sinn í Curves. Best er að konur hringi á undan sér og panti tíma í skoðunarheimsókn í síma 421 8161 og við tökum vel á móti öllum konum. Curves er opin frá klukkan 6:30 á morgnana til klukkan 19 á kvöldin.