Konudagurinn stór í blómasölu
Konudagurinn er á morgun og margir farnir að huga að gjöf handa sinni heittelskuðu. Nanna Jónsdóttir, eigandi verslunarinnar Draumland, hefur staðið vaktina á konudeginum í 7 ár en árið 2004 breytti hún versluninni í blómabúð ásamt því að vera með gjafavörur. Áður var Nanna með alhliða textílverslun en passaði alltaf að hafa einhverja gjafavöru.
„Konudagurinn er alltaf mjög stór og hef ég verið að undirbúa mig fyrir þennan dag með pöntunum,“ sagði Nanna. „Það verða tilboð á blómvöndum eins og venjulega en það fer mest af þeim.“
Valentínusardagurinn var á mánudaginn síðasta en hann er dagur hjóna og para. „Sá dagur er alltaf góður eins og konudagurinn en þá er meira um að yngra fólkið og útlendingar kíki við,“ sagði Nanna aðspurð hvernig Valentínusardagurinn væri samanborið við konudaginn
Nanna sagði einnig að ef menn væru ekki með dömu til að gefa gjöf þá sé um að gera að færa móður sinni blómvönd, strákarnir myndu ekki sjá eftir því. „Bræður mínir voru alltaf mjög duglegir og gáfu mömmu stóran og fallegan blómvönd, mæli með því.“
Eftir 25 ár í verslunarbransanum hefur Nanna enn gaman af þessum dögum og hlakkar mikið til þeirra en hún er ekkert á leiðinni að breyta til.