Konudagurinn í Keflavíkurkirkju
Kór Keflavíkurkirkju tekur konudaginn alvarlega. Karlaraddirnar fá ekki að syngja með í messunni sem hefst kl. 11:00. Þeir verða hins vegar á þönum í eldhúsinu þar sem þeir elda súpu ofan í konurnar og aðra kirkjugesti.
Svo vill til að konudagurinn og Biblíudagurinn koma báðir á sama sunnudeginum og því verða Gídeonmenn gestir í Keflavíkurkirkju á sunnudaginn kemur. Sem fyrr er barnastundin á sínum stað og eru konur sérstaklega hvattar til að mæta. Þær mega að sjálfsögðu taka karlana sína með ef þeir eru ekki á kafi í húsverkunum á þessum tíma!