Konan kaupir gjafirnar í Boston
Marinó Már Magnússon er oft á vakt á aðfangadag.
Marinó Már Magnússon er lögreglumaður og starfs síns vegna hefur hann oft verið á vakt á aðfangadag. Hann nýtur þá tímans í staðinn með fjölskyldunni með því að halda hefð eins og að fara á Árbæjarsafnið og fá gömlu jólin beint í æð eða rölta um bæinn á Þorláksmessu.
Fyrstu jólaminningarnar?
Jólin á Óðinsgötunni hjá ömmu og afa. Líklega verið 2 ára gamall.
Jólahefðir hjá þér?
Undanfarin 20 ár hefur vinnan átt stóran þátt í að móta jólahefðirnar mínar. Hef ekki átt almennilegt frí um jól síðastliðin 15 ár. Verð á næturvakt núna á aðfangadagskvöld. Er orðinn vanur því.
Ertu duglegur í eldhúsinu yfir hátíðirnar?
Já ef ég er ekki að vinna.
Jólamyndin?
A Christmas carol frá 2009 með Jim Carrey og Trading places frá 1983 með Eddy Murphy og Dan Akroyd.
Jólatónlistin?
Er líða fer að jólum með Ragga Bjarna, The Christmas song með Nat King Cole og svo jóladiskur Andy Williams eins og hann leggur sig.
Hvar kaupirðu jólagjafirnar?
Konan kaupir þær í Boston.
Gefurðu mikið af jólagjöfum?
Jú það má alveg segja það.
Ertu vanafastur um jólin, eitthvað sem þú gerir alltaf?
Höfum verið dugleg undanfarin ár að fara á Árbæjarsafnið og fá þar gömlu jólin beint í æð. Hlusta á jólakveðjurnar og svo er það bæjarrölt á Þorláksmessu með fjölskyldunni.
Besta jólagjöf sem þú hefur fengið?
Það var þegar dóttir okkar fæddist rétt fyrir jólin 2004.
Hvað er í matinn á aðfangadag?
Ég var alinn upp við rjúpur en síðustu ár hefur það verið hamborgarhryggur. Sakna rjúpnanna óendanlega mikið.
Eftirminnilegustu jólin?
Það voru klárlega jólin 2004 þegar dóttirin fæddist. En þau sömu jól féll faðir minn Magnús Blöndal frá.
Hvað langar þig í jólagjöf.
Æ bara þetta klassíska, góða bók.