Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Konan á bak við tjöldin
Laugardagur 6. apríl 2013 kl. 09:26

Konan á bak við tjöldin

Frá því að Halla Benediksdóttir flutti til Kaupmannahafnar sumarið 2009 hefur margt á daga hennar drifið. Hún segir að það hafi ekki átt við sig að vera heimavinnandi og því hafi hún ákveðið að setjast aftur á skólabekk. Hún viðurkennir fúslega að það hafi alls ekki verið á dagskránni. Halla er kennari/handavinnukennari og hún segir að það hafi ekki verið hlaupið að því að fá vinnu í Danaveldi með þá menntun.

Allt í gangi á vinnustofu Höllu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Námið sem varð fyrir valinu varð textílhönnun, handverk og kennsla. (tekstildesign, -håndværk og formidling fyrir þá sem eru sleipir í dönsku) Halla á nú eftir tæpar tvær annir þar til hún lýkur námi með BA-gráðu í þeim fræðum. Hún stefnir í framhaldinu að því að nýta þekkingu sína til að hanna og búa til fatnað þar sem áhersla er m.a. á ýmis konar prjónatækni.

Námið er fjölbreytt en Halla fæst við hönnun, tækni í útsaum, prjóni, tauþrykki og vinnu á saumavél. „Það er óhætt að segja að námið gangi vel. Mér finnst eins og ég sé stödd á löngu námskeiði þar sem ég er alltaf að læra eitthvað nýtt,“ segir Halla. Hluti af námi hennar er að fara í starfsnám í minnst fjóra mánuði. Hún var svo heppin að komast í starfsnám hjá ungum og upprennandi hönnuði sem heitir Anne Sofie Madsen. Halla var hjá henni í starfsnámi meira og minna í sjö mánuði. Fyrst tók Halla þátt í undirbúningsvinnu fyrir sumarlínu fyrir árið 2013. Þar var hennar hlutverk að vinna með nál og þráð. Eftir tískuvikuna í ágúst var byrjað á því að undirbúa næstu tískuviku sem var nú í janúar. Þar fékk Halla möguleika á að vinna með Önnu Sofie í að hanna peysu. Þar bjó Halla til munstur og prjónaði peysuna. Það var langt ferli en lærdómsríkt og skemmtilegt að sögn Höllu.

Nú vinnur Halla hörðum höndum að því að prjóna og „brodera“ fyrir stóra sýningu sem haldin verður á ríkisnáttúrusafninu í Kaupmannahöfn (Statens Naturhistoriske Museum). Sýningin opnar í maí og verður fram á haust. „Þetta er stór sýning þar sem margir taka þátt, m.a. margir þekktir danskir listamenn. Hluti af nemendum úr skólanum mínum taka þátt,“ segir Halla.

Halla lætur sér ekki nægja að sinna náminu. Hún kennir einnig íslenskum börnum íslensku og er að starfa að ýmsum minni verkefnum. Nýjasta verkefnið var að fá íslenska ull til Danmerkur þar sem Halla var með í að undirbúa og skipuleggja viðburð sem fram fór í sendiráði Íslands í Kaupmannahöfn.  Svo er hún einnig að vinna að sinni eigin hönnun og í samstarfi við hönnuði.

En sér Halla fyrir sér að verða frægur hönnuður einn daginn?
„Nei það held ég ekki, mig dreymir ekki um að verða fatahönnuður. Þar sem maður getur ekki gert allt sem manni langar til þá einbeiti ég mér að því núna með náminu að hanna uppskriftir fyrir handprjón. Svo finnst mér ótrúlega gaman að vinna með hönnuðum, ég kann vel við það að vera konan á bak við tjöldin.“

Hægt er að fylgjast með Höllu á facebook síðu hennar með því að smella hér.