Kona stýrimannsins spýtti á eftir okkur í sjóinn
Hafsteinn Guðnason, fyrrverandi skipstjóri, fór í fyrsta skipti á sjó átta ára. Segir miklar breytingar hafa orðið í sjósókn og skipum. Nýting á fiski allt önnur. Hentu humri þegar hann kom í bátinn og öll loðna fór lengst af í bræðslu
„Ég fékk að fara róður með pabba þegar ég var átta, níu ára og vildi fara aftur og aftur, þótt ég væri alltaf sjóveikur. Þetta var árið 1947 og pabbi var skipstjóri á Muninn og þetta ár var mikið fiskirí alla vertíðina, mikið róið og allar helgar. Svo þegar ég var orðinn þrettán ára, árið 1952, fór ég í síldarróður með hringnót á hlut með Sigga bróður. Þetta voru síldarleysisár en við fengum 210 mál á tunnur, það var bara trygging en við fengum reynslu,“ segir Hafsteinn Guðnason, fyrrverandi skipstjóri, lengst af á loðnuskipum. Víkurfréttir hittu kappann í Bátasafni Gríms Karlssonar í Bryggjuhúsi Duus í Reykjanesbæ fyrr í vetur en safnið var flutt til og er nú í skemmtilegu plássi á efri hæð. Líkan af Muninn GK er á safninu og við hittum Habba Guðna og báðum hann að rifja aðeins upp sjómanns- og skipstjóraárin. Sjónvarpsviðtal við hann er í Suðurnesjamagasíni vikunnar.
Á togara og á síld ungur að árum
Það átti fyrir Hafsteini að liggja að fara á sjó. Eftir árin með föður sínum á síld fór hann fjórtán ára þrjá túra með togarann Úranusi til Grænlands. Sextán ára, 1955–1956, var Hafsteinn settur í eldhúsið á nýjum Muninn því skipstjóranum, föður hans, vantaði kokk.
„Ég var tvær vertíðar sem kokkur en svo fór ég í Sjómannaskólann og var þar einn vetur og eftir það hefði ég getað stýrt drottningarskipi Englandsdrottningar,“ segir Habbi hlægjandi en á næstu árum var hann skipstjóri á nokkrum bátum og svo tók hann við Kristjáni Valgeiri, sem þá varð stærsta nótaskip landsins, 356 tonn, við komuna til Íslands en var svo lengdur tvisvar þannig að hann bar 800 tonn.
„Nýjustu skip landsins núna fara í einn túr og veiða það sem við gerðum á heilli vertíð. Þetta eru miklar breytingar sem hafa orðið,“ segir skipstjórinn þegar við spyrjum hann út í loðnuveiðar sem nú í seinni tíð hafa gíðarleg áhrif á efnahag landsins.
Héldu að ég væri ruglaður
„Við byrjuðum á loðnu árið 1965 og ég fór fyrsta túrinn á bátnum Sigurpáli. Þetta gaf nú ekki mikið af sér en þá fór öll loðnan í bræðslu. Svo fór ég með þann stóra, Kristján Valgeir, á loðnu og í fyrsta túrinn 6. febrúar á fyrstu vertíðinni frá Sandgerði. Það voru margir sem töldu mig ruglaðan að fara svona snemma. Þá var loðnan komin að Tvískerjum og okkur gekk bara ágætlega.“
Hafsteinn fyldi svo skipinu þegar það var selt til Vopnafjarðar en var komin tveimur árum síðar aftur suður með sjó og ekki löngu seinna tók hann við sama skipi eftir eigendaskipti, nafnabreytingar og miklar breytingar á því. Þegar okkar maður tók við skipinu hét það Gígja en hún var komin í eigu Fiskiðjunnar í Keflavík.
Sautján tölvuskjáir í brúnni
Hafsteinn segir að það hafi orðið bylting í smíði skipa frá þessum tíma og þróun í tækjabúnaði og veiðarfærum. Hann segir frá því hvernig löndun var á loðnu í gamla daga en nú slíta menn „kerlinguna“ í sundur til að ná hrognunum en í gamla daga þegar var verið að dæla í land settu menn keðju á slönguna þegar verið var að dæla í land, til að þrengja hana og þá þrýstust hrognin út.
„Ef ég færi í skipsbrú í dag kynni ég ekki neitt. Ég fór inn í nýtt skip fyrir nokkrum árum og það voru sautján tölvuskjáir í brúnni,“ segir Hafsteinn og brosir. Hann segir að meðferðin og nýting á fiskinum sé allt önnur í dag en var í gamla daga. „Á netabátum fer enginn orðið á sjó nema vita að það sé hægt að draga. Það þekkist ekki lengur að koma með gamlan fisk. Þegar ég var ungur maður á sjó þekktist það alveg að geyma tvær eða þrjár trossur og koma með tveggja, þriggja nátta fisk að landi sem endaði síðan á hjöllunum. Þetta þótti gott í Afríkumanninn en er sem betur fer liðin tíð. Nú er roðið orðið eitt það verðmætasta á fiskinum,“ segir Hafsteinn og rifjar upp fyrir blaðamanni þegar þeir slógu humarinn sem kom upp með krókunum, af við rúlluna. „Þetta er ótrúlegt þegar maður hugsar til baka. Þetta er dýrasti fiskurinn í dag. Svo var fiskur eins og skötuselur og Tindabykkja ekki nýttur nema í bræðslu en við hengdum upp Keilu – en kannski ekki fyrr en eftir tvær vikur. Hjallarnir tóku lengi við og voru reyndar góð aðferð til að verka fisk á þeim tíma.“
Konan spýtti á eftir bátnum
Hafsteinn hóf sjómannsferilinn á síld og hann segir að það hafi verið skemmtileg stemmning þegar mikið var af henni við Íslandsstrendur. Fólk streymdi til Siglufjarðar sem var síldarstöð landsins. Allir vonuðust eftir góðri síldveiði.
Okkar maður lumar á góðri sögu úr Sandgerði þegar þeir voru á leið á sjóinn en eins og margir þekkja eru margir sjómenn hjátrúarfullir – og fjölskyldur þeirra. „Kona stýrimannsins hjá mér kom alltaf á bryggjuna og spýtti í sjóinn á eftir bátnum. Það átti að boða gott,“ sagði Hafsteinn og hló.