Kona í beitningaskúr í Sandgerði
Lyktin er ekki góð þegar komið er inn í beitningaskúra. Beitningakallarnir eru þó alltaf hressir og hafa margt að tala um. Á litlum stöðum út á landi eru beitningaskúrarnir yfirleitt uppspretta frétta og tíðinda úr bæjarfélaginu. Þar koma gömlu kallarnir við og fiska eftir fréttum af sjónum.
Við Strandgötuna í Sandgerði er beitningaskúr og þar inni voru þrír hressir karlar – og ein kona. Anna Sigurðardóttir kallar ekki allt ömmu sína og sjálfsagt er hún ein fárra kvenna sem vinna við beitningu á Íslandi. Hún kann vel við starfið og er ánægð. Hún hefur beitt í Sandgerði frá því í byrjun febrúar. Anna er ekki alveg óvön starfinu því fyrir 15 árum var hún við beitningu eina vertíð vestur á Flateyri. „Maður verður náttúrulega þreyttur í löppunum af að standa svona. En kosturinn við beitninguna er að það er enginn sem stendur með skeiðklukku yfir þér. Maður fær bara visst fyrir balann og ef maður verður þreyttur í miðjum bala þá getur maður sest niður og fengið sér kaffisopa,“ segir Anna og smellir einum króknum í spunakerlinguna til að rétta hann.
Anna beitir 5 bala á dag og er um 8 til 9 tíma að því. En stingur hún sig aldrei á krókunum? „Jú, það kemur fyrir,“ segir Anna og hlær. „Maður varð svolítið götóttur þegar maður var að byrja.“
Síðasta mánuðinn hefur verið lítið að gera í beitningaskúrum víða á Suðurnesjum og segir Anna að ekkert hafi verið að gera síðasta mánuð, en í skúrnum hjá Önnu er beitt fyrir Óla Gísla GK-112. „Það hefur ekkert gefið á sjó síðasta mánuð. Vonandi fer bara að gefa á sjóinn,“ segir Anna og smellir vænni síld á einn krókinn, en bæði er notuð síld og smokkfiskur sem beita.
Myndin: Anna við vinnu sína í beitningarskúrnum í Sandgerði. VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson.