Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Kominn í gulan búning eftir korter
Róbert Ragnarsson.
Fimmtudagur 12. júní 2014 kl. 19:00

Kominn í gulan búning eftir korter

Bæjarstjórinn segir Grindvíkinga kraftmikla og heiðarlega.

Róbert Ragnarsson hefur starfað sem bæjarstjóri Grindavíkur í tæp fjögur ár. Það er ekki fyrsta starf hans í því samfélagi því tvítugur kenndi hann við grunnskólann og var ferðamálafulltrúi bæjarins árið 1999. Í millitíðinni var hann einnig bæjarstjóri í Vogum.

Allir stoltir af sínu og sínum
„Það eru komin 18 ár síðan ég flutti frá Keflavík, en þar ólst ég upp. Ég er þó ættaður frá Járngerðarstöðum og á mínu heimili var alltaf talað vel um Grindavík. Vinur minn sagði við mig þegar ég var ráðinn í starf bæjarstjóra: Grindvíkingar eru búnir að gleyma því að þú ert Keflvíkingur,“ segir Róbert og brosir. Hann hafi fengið á sig stríðniskot eins og: „Hvað ert þú að gera hér? Ert þú úlfur í sauðargæru?“ Upplifun sína af samfélaginu í Grindavík segir hann mjög góða og vel hafi verið tekið á móti honum og fjölskyldu hans. „Þú ert kominn í gulan búning eftir korter þegar þú flytur hingað og ert spurður að því hvort þú sért ekki búinn að fara á Þorbjörn. Hér eru allir stoltir af sínu og sínum, líka brottfluttum.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Róbert fundar með togarasjómönnum.

Brjálæðingarnir byggðu upp samfélagið
Róbert segir að það að vera íbúi í Grindavík sé dálítið eins og í Keflavík þegar hann var barn. „Það hittast allir í búðinni, hér er einn grunnskóli, krakkarnir labba á æfingar og allir halda með Grindavík.“ Honum fannst gott að alast upp í slíku umhverfi og honum finnst einnig gott að ala sín börn upp hér. „Það er rosalegur kraftur í samfélaginu. Ég heyrði því fleygt frá eldri Grindvíkingum að allir sem höfðu vit á því að fara héðan á miðöldum fóru til Reykjavíkur eða Kaupmannahafnar. Brjálæðingarnir urðu eftir og þeirra kynslóðir hafa byggt upp samfélagið hér síðustu aldir.“ Hann útskýrir að það þurfi að vera dálítill brjálæðingur í sér að vaða með haka og skóflur til að moka út hópið sem myndar höfnina og gera grundvöllinn að Grindavík. „Það er þessi barátta og brjálæði sem einkennir dálítið samfélagið hérna. Rífa upp íþróttastarf og eiga Íslandsmeistara tvö ár í röð og bikarmeistara í 3000 manna samfélagi. Lið í efstu deild bæði í kvenna- og karlaflokki í körfubolta og fótbolta.“ Róbert segir að til marks um kraftinn í menningunni og samfélaginu er hversu stórt er hugsað. „Það er eins og að Grindvíkingar haldi stundum að þeir séu 30 þúsund. Menn eru með flottasta tjaldsvæðið á landinu, stærstu sjávarútvegsfyrirtækin og stóra skóla. Þorbjörn er „stærsta“ fjall á landinu og einhvern veginn er allt hægt hérna; það er bara framkvæmt og ofboðslega gaman að taka þátt í því.“

Róbert í starfi sínu við undirritun eins af fjölmörgum samningum.

Er brúarsmiðurinn
Að mati Róberts hefur mikil breyting orðið á menningunni í Grindavík síðan hann starfaði þar um síðustu aldamót. Menningin hafi áður verið aðallega tengd við sjávarútveg og íþróttir og haldnir hámenningarlegir viðburðir í samvinnu við Bláa lónið. „Íbúar hérna í bænum tóku minni þátt en gestir. Núna mæta Grindvíkingar og taka þátt í öllu.“ Þá hafi allir staðlar líka breyst. Þjónusta skiptir meira máli og fólk skilur mikilvægi hennar. „Við rekum hérna fimm eða sex veitinga- og kaffihús. Við erum ekkert bara sjóarar.“ Að vera bæjarstjóri í svona samfélagi segir Róbert dálítið eins og að vera brúarsmiður. Hér sé meiri- og minnihluti og hann sjái um að vinna fyrir alla og byggja brú á milli allra hagsmunaaðila, þannig að fólk skilji hvert annað og geti mæst. „Ég er stjórnmálafræðingur og veit lítið um margt. Tek miklar upplýsingar frá mörgum og reyni að skilja þá og miðla til allra.“ Aðspurður telur Róbert sig vera liðsheildarstjórnanda sem reyni að draga fólk saman og brúa bil. Hann heyri þó frá körlunum á bryggjunni að hann sjáist ekki mikið þar. „Ég fór einn túr á sjó og vann eitt sumar frystihúsi og hef ekki mikla reynslu af sjávarútvegi. Ég yrði bara eins og álfur út úr hól að spjalla við þá. Ég fer þó á hverju ári á milli fyrirtækja með hafnarstjóra og skipulagsfulltrúa og við ræðum það sem hægt er að gera til að komast til móts við væntingar.“

Á bæjarstjórnarfundi.

Tekist heiðarlega á um málin
Fjárhagsstaða Grindavíkurbæjar, eins og margra annarra sveitarfélaga, varð erfið eftir hrun og vakið hefur athygli út fyrir bæjarmörkin að bærinn stendur í dýrum stórframkvæmdum. „Við höfum þurft að gera ýmsar breytingar á undanförnum árum; hagræða í rekstri og gera breytingar er varða íþróttafélögin. Og þá varð þetta bara bardagi,“ segir Róbert og bætir við að hann hafi ekki orðið var við neina uppgjöf, heldur var tekist heiðarlega á um hlutina. „Hér er farið í boltann og verkefnið en ekki manninn. Ég hef aldrei upplifað það hér að standa í átökum eða ágreiningi sem er persónulegur. Við bara leysum ágreining og förum svo bara og gerum eitthvað annað.“ Róbert segir Grindavíkurbæ reyndar alltaf hafa verið vel rekið sveitarfélag.

„Í öllu havaríinu fyrir hrun fjölgaði íbúum hérna hratt. Menn áttu fullt af peningum, það nýbúið að selja Hitaveitu Suðurnesja og miklar vaxtatekjur komu inn. Þá fóru menn í að lækka gjaldskrár og auka útgjöld. Svo hrundu vaxtatekjur eftir hrun og reksturinn réði ekki við þetta lengur. Vaxtatekjustofninn okkar var aftur á móti mjög sterkur.“ Sveitarfélagið hafi ekki farið út í rekstur leigufélaga heldur átt sínar eignir og um fjóra milljarða í handbæru fé. „Við skulduðum en áttum fyrir því. Það sem við gerðum 2011 var að taka til í rekstrinum þannig að ekki þyrfti að treysta á vaxtatekjur. Það var erfitt en tókst.“ Á sama tíma gekk mjög vel í sjávarútvegi í bænum og útsvarsstofninn styrktist mikið. Góðu rekstrarumhverfi var náð og öll lánin greidd upp. „Við erum því í dag bæði komin með góðan rekstrar- og efnahagsreikning. Það er erfiðara að stýra í slíku umhverfi en í niðurskurði því það reynir á forgangsröðun,“ segir Róbert.  

Kominn í gula búninginn.

Skemmtilegustu málin
Skóla- og velferðarmálin segir Róbert þó skemmtilegust og í raun stærstu mál bæjarins. Umræða um sveitarstjórnarmál snúist svo oft um mannvirki og gatnagerð og eitthvað sem sé sýnilegt og áþreifanlegt. „Það sem peningarnir, um 85-90% af skatttekjum bæjarbúa, fara í og við erum að vinna í daglega eru skólarnir og félagsþjónustan. 700 börn eru í leik- og grunnskóla hér og tugir sem við þjónustum í heimaþjónustu. Mikilvægasta verkefni okkar er að styðja við aðra og mennta til að geta staðið á eigin fótum.“

Róbert segist aldrei hafa trúað því að það gæti verið gaman að spá í félagsþjónustu. „Núna erum við að breyta hjá okkur þjónustu við fatlaða og eldri borgara. Gera hana fjölbreyttari og út frá væntingum og þörfum einstaklinganna. Þeir þurfa bara meiri aðstoð við sömu þjónustu og við hin. Ungt fatlað fólk í dag lifir lengur og líður betur en fólk í sömu stöðu fyrir 30 árum.“ Þá séu fjölmennar kynslóðir eldri borgara, eftirstríðsárakynslóðir, þær fyrstu þar sem næstum enginn leið skort og fékk ekki berkla. „Þetta fólk er fullt af orku og lífsgleði og þarf bara félagsþjónustu t.d. við þrif, innkaup og annað. Það vill bara búa í sínum húsum, fara til útlanda og sinna tómstundastarfi með virkniúrræðum. Við erum með ótrúlega menntað og gott starfsfólk sem getur sinnt svona úrræðum og ráðgjöf og höfum ekki nýtt það nógu vel,“ segir Róbert.  

Spurður að lokum um björtustu von Grindavíkur segir Róbert Bláa lónið og Codland koma fyrst upp í hugann. „Við ætlum að verða best í matvælaþjónustu og nýtingu sjávarafurða. Einnig blómstrar ferðamannaiðnaðurinn hér og möguleikarnir eru miklir, svo að framtíðin er ansi björt.“