Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Komdu í Árnaborg
Laugardagur 8. mars 2008 kl. 14:42

Komdu í Árnaborg

-frábær revía hjá Leikfélagi Keflavíkur

Bærinn breiðir úr sér er heiti á revíu Leikfélags Keflavíkur sem var frumsýnt sl. föstudag í Frumleikhúsinu. Revíur félagsins þar sem málefni samfélagsins á svæðinu hafa verið í aðalhlutverki hafa nánast undantekningalaust slegið í gegn og líklegt verður að telja að nú verði ekki undantekning á því þó höfundar séu aðrir en áður.
Leikfélaginu tókst hið ómögulega þegar það gerði félaga í söng- og leikhópnum Breiðbandinu kjaftstopp, seint á síðasta ári, með því að bjóða bandinu að taka að sér að skrifa revíu. Þeir félagar, Ómar, Rúnar og Magnús sem eins og þeir sjálfir segja, eru of litlir miðað við þyngd, tóku djobbið að sér og eins og við var að búast, þrátt fyrir of litla hæð þeirra, hefur þeim tekist mjög vel upp. Ekki hefur sakað að hafa leikkonuna Helgu Brögu Jónsdóttur sem leikstjóra en hún stýrði síðustu revíu Ómars heitins Jóhannssonar árið 2002. Það var metsýning hjá LK og sýningarnar alls tuttugu. Breiðbandsfélagar tileinka Ómar þessa revíu og nú eru tuttugu ár frá því fyrsta revían leit dagsins ljós hjá LK.
Þeir Breiðbandsfélagar þekkja vel til samfélagsins í Reykjanesbæ og nágrenni og þeir leyfa sér í gríninu að lauma inn nettri gagnrýni á menn og málefni. Upphafs og lokaatriði eru tileinkuð Árna Sigfússyni og félögum hans í bæjarstjórn Reykjanesbæjar en fleiri atriði tengjast bæjarstjóranum og bæjarstjórninni sem von er og nær hámarki í lokin þegar sungið er um Árnaborg.
Ljósanótt er tekin fyrir og þar fær ljósvíkingurinn okkar, Steinþór Jónsson, hótelstjóri vænan skammt en einnig eru skemmtileg atriði um húsbyggjandann, háskólann á gamla varnarsvæðinu og fleira tengt brottför varnarliðsins. Þar er t.d. mjög fyndinn kafli um kanamellurnar sem sakna „sinna“ manna. Varla er revía án þess að rokkarinn Rúnni Júll komi fyrir og þar flaug inn einn af bröndurum revíunnar þegar Rúnni útskýrir hvers vegna hann var svona lengi að kvænast henni Mæju sinni.
Breiðbandsfélagar sögðu við undirritaðan að þeir hafi reynt að skrifa þetta þannig að revían væri ekki of mikið „lókal“, þannig að fólk sem væri ekki búsett á Reykjanesi gæti skilið hvað væri í gangi. Það gengur ágætlega upp þó svo óhjákvæmilega detti inn brandarar eða atriði sem erfitt sé fyrir ókunnuga að skilja, t.d. hvers vegna Rúnni Júll var svona lengi að fara upp að altarinu með Mæju sína. En þetta er revía fyrir Suðurnesjamenn og Breiðbandsmenn eiga að hafa revíuna „lókal“ þó svo mörg atriði hafi verið til umfjöllunar í lands fjölmiðlum.
All margir leikarar eru að stíga sín fyrstu spor og frammistaða allra þeirra er góð. Nokkrir fara á kostum. Rúnar Jóhannesson er ekki að stíga sín fyrstu spor á sviði og hann er frábær, nær t.d. hótelstjóranum og Rúnna Júll frábærlega. Gústav Helgi Haraldsson er nýliði og hann er líka frábær á sviðinu. Axel Axelsson sem túlkar Árna bæjarstjóra gerir það vel og kvenþjóðin í verkinu stendur sig líka mjög vel. Guðný Kristjánsdóttir er náttúrlega þaulvön og sýnir það en nýliðar á borð við Aðalheiði Örnu Björgvinsdóttur, Höllu Karen Guðjónsdóttur og Jenný Jónsdóttur sem ma. túlkar sjónvarpskonuna Ragnhildi Steinunni eru mjög góðar. Það er í raun svolítið ósanngjarnt að vera týna einhverja sérstaka fram í verki hjá áhugafélagi því allir standa sig vel . Í pistli Helgu Brögu í leikskrá kemur m.a. fram að færi hafi komist að en vildu og því hafi söng- og leikprufur farið fram. Það hlýtur að teljast til lúxusvandamála.
Undirritaður hefur séð allar revíur leikfélagsins og þær hafa nánast allar fengið góða aðsókn og dóma enda viðfangsefnið skemmtilegt. Fyndni og glettni og nett gagnrýni með góðum söngtextum er góð uppskrift og í þessari revíu eru söngtextarnir settir upp með vinsælum lögum. Það sem helst mætti gagnrýna er að stundum vantar aðeins upp á að texinn komist til skila til áhorfenda. Hljóðið mætti vera aðeins skýrara (kannski aðeins meiri „diskánt“) og stundum mega leikarar aðeins bíða eftir að hláturinn í sal hætti (það er mjög oft hlegið), þeir verða hreinlega að „frysta“ sig á sviðinu og bíða eilítið augnablik. Bærinn breiðir úr er mjög skemmtileg revía og ætti ekki að valda neinum vonbrigðum nema kannski hjá þeim sem koma ekki fyrir í henni eða eru ekki teknir fyrir.
Páll Ketilsson.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024