Kom ekki annað til greina en að taka gamla með
- Rokkfeðgar úr Reykjanesbæ sigruðu í The Rolling Stones leik Nettó og Icelandic Glacier
Sigurvegari í samfélagsmiðlaleik Nettó og Icelandic Glacial, Elmar Þór Hauksson, hélt utan til Berlínar í morgun til að sjá gömlu brýnin í The Rolling Stones. Elmar var að vonum spenntur, en hann hreppti tvo VIP miða að andvirði 200.000 krónur og gat þ.a.l. boðið með sér gesti. Elmar var ekki nokkrum vandræðum með að velja og bauð föður sínum, Hauki Friðjónssyni, sem er annálaður Stones-ari, með á tónleikana.
„Þetta er ofboðslega skemmtilegt. Pabbi er mikill aðdáandi og ég alinn upp við þessa slagara í gegnum hann. Við tengjumst þarna órjúfanlegum böndum og það verður einstaklega gaman að fá að njóta þessa með honum,“ segir Elmar glaðbeittur áður en þeir feðgar fóru um borð í vélina í morgunn. „Það kom ekki annað til greina en að taka gamla með, en þegar ég tilkynnti honum þetta sagðist hann einfaldlega ekki vita hvað hann ætti að gera við sig, slíkur var spenningurinn og geðshræringin,“ segir Elmar og skellir upp úr. Þeir feðgar munu sjá Rolling Stones á Olympiastadion í Berlín í kvöld (föstudag) og ekki stóð á svörum þegar þeir voru inntir eftir óskalagi. „Brown Sugar, það væri toppurinn að heyra það.“
Kampakátir feðgar í flugvélinni í morgun