Kom alla leið frá Japan til þess að sjá Ferska vinda
Chieko Sato frá Omashi í Japan hreifst mjög af verkum japanska listamannsins Mikio Kawasaki á síðasta ári. Hún frétti af Ferskum vindum í gegnum hann og ákvað að ferðast til Íslands og kynna sér hvað væri að gerast á listahátíðinni Ferskum vindum.
Chieko vinnur á hjúkrunarheimili í Omashi, Björk er uppáhaldssöngkonan hennar og hún er virkilega hrifin af Íslandi og langar að fræðast meira um landið. Hún er mjög hrifin af því hvernig Íslendingar nýta orkuna úr náttúrunni og langaði til að fræðast meira um það um leið og hún upplifir Ferska vinda í Garði.
Chieko býr í eina viku á Gistihúsinu Garði. Hún segist ekki vera neinn listamaður en sé hrifin af því sem Ferskir vindar og landið séu að gera þrátt fyrir að landið hafi lent í efnahagslegu skipbroti fyrir þremur árum síðan. Henni finnst stórmerkilegt að Ferskir vindar og Garður bjóði listamönnum að koma alls staðar að úr heiminum til að vinna skapandi verk á borð við verkið Hiroshima 66 sem var unnið á Ferskum vindum 2010-11 og felur í sér 66 hnefastóra steina á stóru steinborði. En það vísar í að það voru 66 ár liðin frá því að kjarnorkusprengjunni var varpað á Hiroshima og Nagasaki. Mikio Kawasaki skapaði verkið og vonar að með því hjálpi hann fólki til að muna eftir þessum sögulega harmleik og að öll kjarnorkuvopn hverfi í þeirri von að harmleikurinn endurtaki sig aldrei aftur. En Mikio biður fólkið í Garði um að bæta við einum steini á ári í verkið svo steinarnir séu jafnmargir og árin frá því að sprengjunni var varpað.
Þessum japanska ferðalangi, sem er að heimsækja Ísland í fyrsta skiptið, finnst stórkostlegt hvernig listamenn Ferskra vinda koma á framfæri í list sinni ábendingum um að það sé eitthvað rangt í heiminum. Henni finnst eins og listamennirnir í Garði séu ekki bara að skapa list heldur séu þeir að gefa heiminum skilaboð. Chieko segist vonast til þess að Ísland verði hið fullkomna land sem gæti verið góð fyrirmynd fyrir önnur lönd.
Sato er hér vinstra megin á myndinni ásamt Taeko Mori listamanni.