Kolbrún Róberts: Sýnir himinn og jörð
Kolbrún Róberts heldur myndlistasýninguna Himinn og jörð við hliðina á Bónus video að Baldursgötu 14 í Reykjanesbæ um Ljósanæturhelgina. Sýningin er sjöunda einkasýning Kolbrúnar en þetta er í fimmta sinn sem Kolbrún sýnir verk sín á Ljósanótt. Sýningin hefst föstudaginn 1. september og stendur fram á sunnudag. Opið verður frá 13-18 alla dagana og jafnvel lengur á laugardeginum.
„Að undirbúa sýningu fyrir Ljósanótt er eitt af því skemmtilegasta sem ég geri, það er alltaf gríðarleg stemmning og gaman að taka á móti fólki þessa helgi,“ sagði Kolbrún en um 2000 gestir skrifuðu í gestabók hjá henni á Ljósanótt 2005. „Það er gefandi fyrir listamann sem vinnur einn alla daga að spjalla við gesti,“ sagði Kolbrún en sum hver verka hennar á sýningunni eru um 2,4 metrar að hæð.
Verk Kolbrúnar á sýningunni hafa múrgrunn og notar Kolbrún olíumálningu og olíuvax við vinnslu myndanna. „Myndirnar eru unnar gróft og hratt og í mörgum lögum og þurfa því góðan tíma til þess að þorna,“ sagði Kolbrún sem hefur stundað myndlist í sex ár.
[email protected]