Kolbrún elskar jólin
Segja vil ég sögu
af sveinunum þeim,
sem brugðu sér hér forðum
á bæina heim.
Þetta eru upphafslínur úr kvæði Jóhannesar úr Kötlum um Jólasveinana en kvæðið er einnig innblástur að jólasveinasýningunni, sem nú er opin öllum á Bæjarbókasafni Reykjanesbæjar.
Kolbrún Guðjónsdóttir, oftast kölluð Kolla, er listakona með meiru, þriggja barna móðir, eiginkona og fjórfaldur Íslandsmeistari í Taekwondo. Hún er sú sem bjó til þessa jólasýningu en þarna eru allir þrettán jólasveinarnir í íslenskri útgáfu, Grýla, Leppalúði og Jólakötturinn. Frábær sýning og listilega vel unnin, sem allir verða að sjá en sýningin er opin til 6. janúar 2011.
Stekkjarstaur kom fyrstur,
stinnur eins og tré.
hann laumaðist í fjárhúsin
og lék á bóndans fé.
„Mér finnst þetta kvæði svo skemmtilegt og fann þegar ég las það fyrir börnin mín, að ég vildi lífga allt ævintýrið við á skapandi hátt. Ég upplifði kvæðið svo sterkt og sá allar fígúrurnar ljóslifandi fyrir mér, að ég keypti postulínsleir og efni, sem gerði mér kleift að byrja en það var fyrir átta árum á meðan við bjuggum í Noregi. Þegar við bjuggum þar þá fór ég á alls konar handverksnámskeið og listræna kúrsa. Ég tók grunnnám í myndlist og hönnun einnig í Noregi. Þetta voru skemmtileg ár. Það hafa allir gott af því að búa nokkur ár erlendis,“ segir Kolla og maður finnur að Noregur á dálítið í henni.
Kolbrún Guðjónsdóttir er gift Brynjari Steinarssyni, sem vinnur hjá skrifstofum Samkaupa og saman eiga þau þrjú börn á aldrinum 5 til 16 ára.
Það er gaman að segja frá því, að fyrir nokkrum árum byrjaði Kolla að æfa Taekwondo ásamt tveimur eldri börnum sínum, Jóni Steinari og Ástrós, og hefur orðið Íslandsmeistari fjórum sinnum en börnin hennar hafa einnig landað þeim titli nokkrum sinnum. Þau eiga öll hrós skilið fyrir árangurinn.
Heimavinnandi húsmóðir
„Ég tók þá ákvörðun í vor að hætta að vera útivinnandi mamma. Maður þarf ekki alltaf að hafa meira og það sem skiptir mig mestu máli er fjölskylda mín. Mér fannst ég orðin þreytt, reið og pirruð og hafa lítinn tíma fyrir börnin og heimilið. Ég var stressuð yfir öllum verkefnunum hér heima, sem biðu mín eftir langan vinnudag, svo ég ákvað að njóta þess betur að vera heimavinnandi húsmóðir. Börnin eru líka ánægðari þegar ég er meira heima. Mér finnst ég svo heppin að eiga þau. Þetta er dýrmætur tími sem líður fljótt, þau verða orðin stór og farin að heiman, áður en maður veit af. Mér finnst starfsframi minn þessi árin liggja í börnunum mínum, að styðja þau og koma þeim til manns og gera það eins vel og ég get,“ segir Kolla og er greinilega ánægð með þessa ákvörðun.
Kolla jólabarn!
Kolla segist vera mikið jólabarn og vilji helst að þau byrji í október. „Já, ég elska jólin og ég laumast í jólatónlist snemma á haustin en heimilisfólkinu finnst í lagi að ég spili jólalögin upphátt um miðjan nóvember. Þau hlæja stundum að jólabarninu í mér.
Þegar við bjuggum í Noregi þá passaði ég að varðveita íslensku jólin og jólahefðirnar með krökkunum. Ég las fyrir þau um íslensku jólasveinana og söng með þeim. Ég man vel þegar við vorum á leið í íslenska messu í Noregi, hvað íslensku jólin búa sterkt í manni, þegar ég var að syngja upphátt með börnunum Bráðum koma blessuð jólin. Ég ákvað þarna úti að búa til þrettán jólasveina og senda Stínu, góðri vinkonu minni, sem býr í Bandaríkjunum, í þakklætisskyni fyrir svo margt sem hún hefur gert fyrir mig. Þessi jólasveinafjölskylda, sem er hérna á Bæjarbókasafninu er seinni útgáfan. Ég byrjaði á að búa til hausana á þeim úr postulínsleir úti í Noregi en það tók mig átta ár að klára þá. Það er meiri vinna í þeim en ég fullkláraði þá ekki áður en við fluttum aftur heim, þeir fóru ofan í kassa og gleymdust hreinlega. Við höfðum nóg að gera að aðlagast aftur lífinu á Íslandi og huga að börnunum okkar hér heima. Ég fann þennan kassa aftur í vor, þegar ég var að hreinsa til í geymslunni. Það var gaman að sjá þetta allt aftur eftir öll þessi ár en ég var búin að steingleyma þessu handverki, sem ég byrjaði á í Noregi. Ég ákvað að gefa mér lokadag, ég vildi pressa á mig að klára verkefnið, svo ég talaði við Huldu Þorkels á Bæjarbókasafninu og spurði hvort hún vildi fá jólasýningu í desember. Mér fannst sýningin eiga heima hér, því ég vinn hana upp úr kvæðum jólanna. Hulda tók mér mjög vel og á skilið þakkir fyrir það. Ég fór í gang og dundaði við fígúrurnar, ég las aftur kvæðið og fann sterkt fyrir fígúrunum þar. Ég tala oft við sjálfa mig þegar ég er að skapa, því ég hef mikla þörf fyrir að upplifa það sem ég er að búa til. Krakkarnir mínir segja stundum, mamma hvaða svipur er á þér núna en þá er ég kannski að gretta mig framan í Grýlu á meðan ég er að skapa hana, það er eins og ég fái karakterinn í mig, bara fyndið. Það eru miklar tilfinningar í gangi þegar ég skapa og mér líður mjög vel. Mér þykir voða vænt um þessa sýningu, þetta eru börnin mín í jólaheimi, sem ég vil alls ekki selja. Það er gaman að fá að stilla þeim upp og heyra af ánægju fólks, sem sér þetta hér á bókasafninu,“ segir Kolla með sælusvip.
Föndrið er róandi
Hún er alltaf að föndra hún Kolla, dunda sér við eitthvað. Það er hennar ró og hugleiðsla. Kolla sagði að áður fyrr bjó hún til öll jólakortin sjálf en svo ákvað hún að kaupa jólakort um hver jól af Félagi krabbameinssjúkra barna, til að styrkja gott málefni um leið og hún sendir jólakveðjurnar. En hún gerir fleira en að föndra, því hún er mjög virk í öllu foreldrastarfi með börnum sínum. Hún hefur líka gaman af að gleðja börnin sín og önnur börn og býr til heilu viðburðina í því tilefni. Í kjallaranum heima hjá sér býr hún til á hverju ári heilan ævintýraheim vegna Hrekkjavöku. „Já, ég hugsaði þegar bæklingarnir voru að koma með öllum búningunum vegna Hrekkjavöku að við værum ekki með neina svona hátíð og ákvað því bara að byrja sjálf og búa hana til heima hjá mér. Það er voða gaman að brjóta upp veturinn með því að innleiða svona skemmtihátíð fyrir börnin mín og vini þeirra og í raun líka fyrir mig sjálfa til að upplifa barnið í mér. Það er mikið fjör þennan dag og þau upplifa ævintýri þegar ég kem þeim á óvart með töfraheiminum í kjallaranum. Krakkarnir hafa svo gaman af þessu og þau verða svo glöð. Mér finnst gaman að gleðja og ég vil styðja við börn á allan hátt þegar ég get, mín börn eða annarra, skiptir ekki máli. Stundum dettur mér í hug að baka og sendi óvænt með Eyþóri Inga á leikskólann. Mér finnst gaman að koma á óvart og þegar ég finn það hjá sjálfri mér að gleðja aðra, þá fellur það í góðan jarðveg og það er góð tilfinning,“ segir hún að lokum.
Á sjálfa jólanóttina,
-sagan hermir frá,-
á strák sínum þeir sátu
og störðu ljósin á.
Svo týndust þeir í burtu,
-það tók þá frost og snjór.
Á þrettándanum síðasti
sveinstaulinn fór.
Fyrir löngu á fjöllunum
er fennt í þeirra slóð.
-En minningarnar breytast
í myndir og ljóð.
Við eigum jólahefðir eins og engin önnur þjóð, þarna eru rætur okkar. Þegar Kolla vitnar í kvæði Jóhannesar úr Kötlum og býður upp á jólasýningu, þá er hún að bjóða okkur öllum að tengjast betur íslenskum rótum okkar í sagnahefðum jólanna.
Við kveðjum Kollu jólabarn og óskum henni til hamingju með fallega jólasýningu. Kolla má vera stolt af sýningu sinni, því hún er vægast sagt stórkostleg. Þetta er sýning sem allir verða að sjá. Sýning sem gleður alla, unga sem aldna.