Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Knarrarneskirkja var vígð um helgina
Hjónin Birgir Þórarinsson og Anna Rut Sverrisdóttir leiða gesti til vígslu Knarrarneskirkju. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
þriðjudaginn 10. ágúst 2021 kl. 07:38

Knarrarneskirkja var vígð um helgina

Knarrarneskirkja sem hjónin á Minna-Knarrarnesi, þau Birgir Þórarinsson og Anna Rut Sverrisdóttir, hafa reist á jörð sinni var vígð sem heimiliskirkja síðastliðinn sunnudag. Boðsgestum var stillt í hóf við athöfnina enda samkomutakmarkanir í gildi en athöfnin var einstaklega falleg og tókst vel til.
Hjónin Anna Rut og Birgir mega vera stolt af þessu framtaki sínu enda Knarrarneskirkja glæsileg og vönduð í alla staði. Birgir sá sjálfur um steinhleðsluna umhverfis kirkjuna en leitaði til Úkraínu eftir gerð listmuna í hana.

Herra Karl Sigurbjörnsson, biskup, vígði kirkjuna og honum til aðstoðar voru séra Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup, og séra Kjartan Jónsson, sóknarprestur Kálfatjarnarsóknar. Vígslan var hin heilagasta og við athöfnina söng Alexandra Chernyshova, sópransöngkona, úkraínskt þjóðlag en það voru handverks- og listamenn frá Úkraínu sem gerðu altaristöfluna, predikunarstólinn og fleiri muni sem prýða kirkjuna. Davíð Ólafsson, óperusöngvari, söng lagið Þitt lof, ó Drottinn og organisti var Ólafur Sigurjónsson.

Alexandra Chernyshova, sópransöngkona, herra Karl Sigurbjörnsson, biskup, og Birgir Þórarinsson, alþingismaður og nú kirkjueigandi, glöddust öll yfir góðum degi.

Eftir athöfnina buðu hjónin til kaffisamsætis þar sem gleðin var allsráðandi enda ekki á hverjum degi sem jafn glæsileg kirkja sem þessi er vígð. Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, fékk að vera viðstaddur og má sjá myndir frá hátíðinni í meðfylgjandi myndasafni. Nánar verður fjallað um Knarrarneskirkju í Suðurnesjamagasíni sem sýnt verður á Hringbraut klukkan 19:30 næstkomandi fimmtudag, þátturinn verður einnig aðgengilegur í sjónvarpi Víkurfrétta.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Það var enginn óboðinn að fara að ryðjast fram hjá þessum vígalega víkingi sem gætti dyra kirkjunnar.

Vígsla Knarrarneskirkju 8. ágúst 2021