Klukkaði gamla vitann og lauk 700 km. kjördæmisgöngu
Myndarlegur hópur gekk með Ásmundi Friðrikssyni alþingismanni síðasta spölinn í göngunni „Kjördæmið á enda“ en gönguferðin endaði á Garðskaga daginn fyrir gamlársdag. Lokaáfanginn í göngunni var frá Keflavíkurkirkju að Garðskagavita en allt árið 2018 hefur Ásmundur verið á göngu um Suðurkjördæmi, allt frá Hvalnesskriðum í austri og að Garðskaga. Þjóðvegurinn á þessari leið er um 550 km. langur en Ásmundur fer ekki alltaf troðnar slóðir og því hefur hann gengið um 700 km. á ferðalaginu.
Síðasti áfanginn hófst við Keflavíkurkirkju. Hann hófst á yndisstund. „Sr. Erla Guðmundsdóttir tók á móti okkur og fór með ferðabæn, sjóferðabæn sem átti vel við. Í gönguhópnum voru skipstjórar, vélstjóri, fv. sjómenn, börn sjómanna og auðvitað erum við öll tengd sjónum og gjöfum hans.
Þegar við lögðum af stað í síðasta áfangann hringdu bjöllur Keflavíkurkirkju og það fór um mig gleðistraumur á göngunni,“ segir Ásmundur Friðriksson. Hann var heldur ekki að ganga í Garðinn í fyrsta skipti. Á árunum 2007–2008 gekk Ásmundur 100 ferðir milli Garðs og Keflavíkur. Það gerði hann m.a. til að sýna góðum vini sínum, Sævari heitnum Guðbergssyni, stuðning í erfiðum veikindum. Ásmundur hefur haldið Garðgöngum áfram og samhliða því að ljúka göngunni um kjördæmið daginn fyrir gamlársdag þá var Ásmundur að ljúka við sína 200. gönguferð á milli Keflavíkur og Garðs.
„Það var góð tilfinning að snerta Garðskagavita og ljúka þannig 700 km göngunni með öllu þessu góða fólki sem deildi gleðinni með mér,“ segir Ásmundur. Sigríður eiginkona Ásmundar beið á Garðskaga með heita súpu handa hópnum en við innkomuna í Garðinn tóku hjónin Sigurður Ingvarsson og Kristín Guðmundsdóttir á móti gönguhópnum með kaffi og piparkökum.
„Ég þakka öllum sem lagt hafa mér lið á göngunni. Margir hafa keyrt mig og sótt víða um kjördæmið en göngutíminn hefur ekki alltaf verið á kristilegum tíma. Oft lagði ég af stað fjögur á morgnanna til að losna við mestu umferðina. Ég fékk allar gerðir af veðurfari á leiðinni. Mest var tíu gráðu frost, oft rigndi hressilega og vindurinn fór nokkuð hratt yfir. Flestir áfangarnir voru 20–25 km. en sá lengsti frá Vegamótum að Ölfusárbrú á Selfossi var 33 km. þann 1. maí,“ segir Ásmundur í færslu sem hann ritaði í fésbókina eftir að göngunni lauk. Hann segir næstu markmið óákveðin en þau komi í ljós næstu daga.
Ásmundur og gönguhópurinn við gamla vitann á Garðskaga. Þarna vantar nokkra göngumenn í hópinn. VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson
Hópurinn gengur eftir göngustíg við Skagabraut í Garði.