Klassíkin á vel við röddina
Kristín Þóra Jökulsdóttir er tvítug stúlka úr Keflavík sem hélt á dögunum einsöngstónleika í Duus-húsum, sem var hluti af söngnámi hennar. Kristín hefur verið í Tónlistarskóla Reykjanesbæjar síðan hún var 5 ára gömul og spilar einnig á fiðlu. Einnig tók hún þátt í verkefni sl. sumar þar sem hún fór til Kanada til þess að taka þátt í svokölluðu Snorra West verkefni, en tilgangurinn er sá að styrkja bönd Íslendinga hér heima og Íslendinga í vesturheimi.
Þú hélst tónleika fyrir stuttu í Duus-húsum. Hvernig gekk það?
„Mjög vel, þakka þér fyrir, þetta var mjög gaman. Ég var að klára framhaldsstig í söngnámi. Prófið er í tveimur hlutum, fyrri hlutinn er að syngja fyrir prófdómara í hefðbundnu prófi og síðari hlutinn er að halda klukkutíma einsöngstónleika. Prófdómarinn er þá viðstaddur og skrifar umsögn. Þetta var semsagt síðari hluti prófsins hjá mér.“
Hvað hefurðu verið að læra söng lengi?
„Ég er búin að læra söng í fimm og hálft ár og er búin að hafa fjóra kennara. Það eru Hjördís Einarsdóttir, Jóhann Smári Sævarsson, Sigurður Sævarsson og Dagný Jónsdóttir en hún er núverandi kennarinn minn.“
Ertu að læra klassískan söng, og af hverju valdirðu það?
„Já, ég er að læra klassískan söng. Þegar ég byrjaði í söngnámi var það bara af því að mig langaði að syngja, ég var ekki með neinn sérstakan söngstíl í huga en klassíkin á mjög vel við röddina mína og mér finnst hún skemmtileg. Þannig að hún hefur í raun orðið ósjálfrátt fyrir valinu.“
Hvenær kviknaði áhuginn fyrir söng?
„Ég hef alltaf haft áhuga á tónlist og söng. Ég var 11 eða 12 ára þegar ég bað fyrst um að fá að læra söng og hóf svo söngnámið tæplega 14 ára.“
Stefnir þú á framhaldsnám í söng?
„Já, ég geri það. Helst þá í London en Skotland kemur líka sterkt til greina og svo að sjálfsögðu Þýskaland.“
Ertu að læra á önnur hljóðfæri í tónlistarskólanum?
„Já, ég læri á fiðlu og hef lært á hana síðan ég var 5 ára, fyrst samkvæmt Suzuki aðferðinni en núna síðustu ár hef ég verið í hefðbundu námi hjá Unni Pálsdóttur. Munurinn er sá að í Suzuki námi er mest lært eftir eyranu en hefðbundið nám byggist mun meira upp á nótnalestri.“
Þú fórst til Kanada í sumar til að taka þátt í verkefni, ekki satt? Hvernig kom það til og hvað varstu að gera þar?
„Mamma benti mér á auglýsingu á vef Kennaraháskóla Íslands þar sem verið var að auglýsa svokallað Snorra West verkefni og ég sótti um. Verkefnið gengur út á það að íslenskir krakkar fara í sex vikur til Manitobafylkis í Kanada á slóðir Vestur-Íslendinga, Gimli og það svæði. Það koma líka vesturíslenskir krakkar hingað til Íslands og dvelja í jafn langan tíma. Í ár voru þau 14 og einn þeirra bjó meira að segja hér í Keflavík. Þetta er gert til þess að styrkja böndin á milli Íslendinga hér heima og Íslendinga í vesturheimi. Við fórum 8 út í þetta skipti og bjuggum hjá íslensk-kanadískum fjölskyldum, kynntumst kanadískri menningu og upplifðum Íslendingadaginn ásamt ýmsu öðru svo sem vikulöngu enskunámskeiði í Manitobaháskóla. Við tókum líka þátt í tveimur skrúðgöngum og unnum sjálfboðavinnu af ýmsu tagi. Eitt það skemmtilegasta sem við gerðum úti var að fara í veislu á Íslendingadeginum í boði forsætisráðherra Íslands með öllu fína fólkinu í Gimli og Winnipeg. Þar voru allir með sinn einkaþjón, maturinn var fjórréttaður og vísundakjöt í aðalrétt, en vísundar eru fylkisdýr Manitoba. Þetta var stórglæsilegt og mjög gaman.“
Ef einhverjir vilja taka þátt í verkefninu þá er um að gera að skoða vefsíðu þess „http://www.snorri.is/Snorri%20West.htm“. Aldurstakmark er 18-25 ára og ég hvet alla til að skoða. Umsóknarfrestur er 18. mars.
Þú hélst tónleika fyrir stuttu í Duus-húsum. Hvernig gekk það?
„Mjög vel, þakka þér fyrir, þetta var mjög gaman. Ég var að klára framhaldsstig í söngnámi. Prófið er í tveimur hlutum, fyrri hlutinn er að syngja fyrir prófdómara í hefðbundnu prófi og síðari hlutinn er að halda klukkutíma einsöngstónleika. Prófdómarinn er þá viðstaddur og skrifar umsögn. Þetta var semsagt síðari hluti prófsins hjá mér.“
Hvað hefurðu verið að læra söng lengi?
„Ég er búin að læra söng í fimm og hálft ár og er búin að hafa fjóra kennara. Það eru Hjördís Einarsdóttir, Jóhann Smári Sævarsson, Sigurður Sævarsson og Dagný Jónsdóttir en hún er núverandi kennarinn minn.“
Ertu að læra klassískan söng, og af hverju valdirðu það?
„Já, ég er að læra klassískan söng. Þegar ég byrjaði í söngnámi var það bara af því að mig langaði að syngja, ég var ekki með neinn sérstakan söngstíl í huga en klassíkin á mjög vel við röddina mína og mér finnst hún skemmtileg. Þannig að hún hefur í raun orðið ósjálfrátt fyrir valinu.“
Hvenær kviknaði áhuginn fyrir söng?
„Ég hef alltaf haft áhuga á tónlist og söng. Ég var 11 eða 12 ára þegar ég bað fyrst um að fá að læra söng og hóf svo söngnámið tæplega 14 ára.“
Stefnir þú á framhaldsnám í söng?
„Já, ég geri það. Helst þá í London en Skotland kemur líka sterkt til greina og svo að sjálfsögðu Þýskaland.“
Ertu að læra á önnur hljóðfæri í tónlistarskólanum?
„Já, ég læri á fiðlu og hef lært á hana síðan ég var 5 ára, fyrst samkvæmt Suzuki aðferðinni en núna síðustu ár hef ég verið í hefðbundu námi hjá Unni Pálsdóttur. Munurinn er sá að í Suzuki námi er mest lært eftir eyranu en hefðbundið nám byggist mun meira upp á nótnalestri.“
Þú fórst til Kanada í sumar til að taka þátt í verkefni, ekki satt? Hvernig kom það til og hvað varstu að gera þar?
„Mamma benti mér á auglýsingu á vef Kennaraháskóla Íslands þar sem verið var að auglýsa svokallað Snorra West verkefni og ég sótti um. Verkefnið gengur út á það að íslenskir krakkar fara í sex vikur til Manitobafylkis í Kanada á slóðir Vestur-Íslendinga, Gimli og það svæði. Það koma líka vesturíslenskir krakkar hingað til Íslands og dvelja í jafn langan tíma. Í ár voru þau 14 og einn þeirra bjó meira að segja hér í Keflavík. Þetta er gert til þess að styrkja böndin á milli Íslendinga hér heima og Íslendinga í vesturheimi. Við fórum 8 út í þetta skipti og bjuggum hjá íslensk-kanadískum fjölskyldum, kynntumst kanadískri menningu og upplifðum Íslendingadaginn ásamt ýmsu öðru svo sem vikulöngu enskunámskeiði í Manitobaháskóla. Við tókum líka þátt í tveimur skrúðgöngum og unnum sjálfboðavinnu af ýmsu tagi. Eitt það skemmtilegasta sem við gerðum úti var að fara í veislu á Íslendingadeginum í boði forsætisráðherra Íslands með öllu fína fólkinu í Gimli og Winnipeg. Þar voru allir með sinn einkaþjón, maturinn var fjórréttaður og vísundakjöt í aðalrétt, en vísundar eru fylkisdýr Manitoba. Þetta var stórglæsilegt og mjög gaman.“
Ef einhverjir vilja taka þátt í verkefninu þá er um að gera að skoða vefsíðu þess „http://www.snorri.is/Snorri%20West.htm“. Aldurstakmark er 18-25 ára og ég hvet alla til að skoða. Umsóknarfrestur er 18. mars.