Klassart vinna að nýrri plötu
„Það er ný plata á leiðinni. Við erum að vinna í útsetningum og erum að finna út hvað við viljum segja á plötunni, en lögin eru klár,“ segir Smári Guðmundsson, lagahöfundur og gítarleikari hljómsveitarinnar Klassart frá Sandgerði.
Eru einhverjar nýjar áherslur, er blúsinn enn til staðar?
„Blúsinn er ekkert farinn og þetta er að mestu leyti sama tónlist og hefur verið hjá okkur. Þetta er sami grunnurinn en svo kemur í ljós hvernig platan verður,“ segir Smári sem semur öll lögin á plötunni en hann á um 17 lög á lager. „Þetta verða svona um 12 lög á plötunni,“ en Smári segir erfitt að negla niður hvenær platan verði tilbúin. Sveitin er búin að vera í pásu um nokkurt skeið og unnið að öðrum verkefnum og stundað nám. Smári og Fríða systir hans, sem er söngkona hljómsveitarinnar hafa þó verið að spila hér og þar saman enda þurfa tónlistarmenn að eiga fyrir salti í grautinn. „Þegar platan kemur svo út þá erum við með allt bandið með okkur og munum fylgja henni eftir. Við verðum að grúska í plötunni í sumar en við ætlum þó að gefa okkur tíma til að spila á Keflavík Music Festival,“ en Smári en einmitt einn af skipuleggjendum hátíðarinnar sem fram fer í Reykjanesbæ í sumar. „Ég er mjög spenntur yfir þessari hátíð, það verður mikil hátíð í bæ. Við í Klassart ætlum að koma saman líka í fyrsta sinn í smá tíma með fullt band á hátíðinni, svo þetta er allt mjög spennandi. Við Fríða munum líka fara í alla leikskólanna og spila fyrir krakkana. Þetta verður svaka fjör.“
Er von á slagara í plötunni?
„Já já, það verða alveg fullt af hitturum á plötunni,“ segir Smári og hlær. „Maður veit aldrei hvað verður vinsælt og hvað ekki, það er ómögulegt að spá fyrir um það.“ Smári nefnir sem dæmi að lagið Yfirgefinn með hljómsveitinni Valdimar komst nánast ekki á plötu hljómsveitarinnar en varð svo síðar þeirra vinsælasta lag. Smári segist oft leita til annarra tónlistarmanna á Suðurnesjum varðandi hugmyndir. „Ég og Valdimar (Guðmundsson) erum oft á Facebook-spjallinu á kvöldin að kasta á milli okkar hugmyndum. Ég sendi honum lagabúta og hann sendir mér texta sem hann er að vinna í. Það er alltaf gott að fá álit annarra og við Valdi erum alveg hreinskilnir við hvorn annan. Ef eitthvað er ömurlegt þá er ekki farið leynt með skoðanir sínar.“
Þetta verður fyrsta platan sem Smári tekur ekki upp með Kidda í Hjálmum (Guðmundi Kristni Jónssyni) en Kiddi hefur tekið upp 10 breiðskífur sem Smári hefur komið nálægt. Félagi Smára, Björgvin Ívar Baldursson, erfðarprinsinn að Geimsteini mun sjá um upptökur á þessari plötu og sjálfsagt verða hans fingraför á plötunni. „Það kæmi aldrei til greina að ráða upptökustjóra sem vildi ekki fá að ráða einhverju, upptökustjórinn þarf að fá að koma sínu á framfæri.“
Verður þá hljómurinn til fyrir tilstilli upptökustjórans?
„Það er alveg bókað mál. Kiddi á t.d. alveg helling í hljómnum á hinum plötunum okkar.“
Smári segir að honum finnist skemmtilegast að vinna í hljóðveri og að koma plötu frá sér. Hann hefur verið rólegur í lagasmíðum undanfarið en hann byrjaði að semja lögin á þessa plötu í enda árs 2011. „Ég hafði bara ekki þörf fyrir það að semja og andinn kom ekki yfir mig. Svo fór ég að finna fyrir því að ég þurfti að skapa og semja tónlist. Nýjasta lagið sem maður semur er alltaf það besta sem maður semur, í huga manns. Maður er því orðinn hræddur um að þegar maður semur nýtt lag þá fari maður að henda þeim sem eldri eru, þó svo að það séu jafnvel miklu betri lög,“ segir Smári að lokum.
Nýtt lag, Smástirni er komið í spilun frá hljómsveitinni en hægt er að nálgast lagið bæði á gogoyoko og á vefsíðu Víkurfrétta.